Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales – Fyrsta stikla!

Nýjasta Pirates of the Caribbean myndin, Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales, verður frumsýnd 26. maí nk. Í dag kom fyrsta stikla í fullri lengd út, og miðað við það sem þar er að sjá má búast við sannkallaðri veislu í maí.

 

Disney fyrirtækið hefur áður sent frá sér tvær kitlur, en þær voru báðar stuttar og Johnny Depp í hlutverki Jack Sparrow kom þar hvergi við sögu.

Auk stiklunnar er komið nýtt plakat sem má sjá neðst í fréttinni.

Söguþráður myndarinnar er þessi: Jack Sparrow skipstjóri á á brattann að sækja enn á ný þegar illvígir draugar, undir stjórn erkióvinar hans Salazar skipstjóra, sleppa úr þríhyrningi djöfulsins, ákveðnir í að drepa hvern einasta sjóræningja á sjó .. þar á meðal hann. Eina von Jack liggur í því að finna hinn goðsagnakennda þrífork Pósedons, en hann gefur þeim sem á heldur, algjör vald yfir úthöfunum….

Fyrsta Pirates myndin, Pirates of the Caribbean: Curse of the Black Pearl, sló í gegn á sínum tíma og gaf tóninn fyrir það sem kom á eftir.  Meðal annars fékk Johnny Depp tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í hlutverki Captain Jack Sparrow.

Tekjur af seríunni allri nema alls um 3,7 milljörðum bandaríkjadala, en síðasta mynd, Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides, þénaði meira en einn milljarð dala.

Í þessari fimmtu mynd í seríunni snúa aftur ásamt Depp þau Geoffrey Rush sem Barbossa, Orlando Bloom sem Will Turner, Kevin McNally sem Joshamee Gibbs og Stephen Graham sem Scrum.

Þá eru nýliðar eins og Kaya Scodelario, Brenton Thwaites, Golshifteh Farahani, Javier Bardem og Sir Paul McCartney.

Leikstjórar eru Norðmennirnir Joachim Rønning and Espen Sandberg.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: