Pirates 5 frestað til 2017

Nýr frumsýningardagur hefur verið settur á sjóræningjann síkáta Jack Sparrow, en hann er nú væntanlegur í bíó árið 2017 í fimmtu Pirates of the Caribbean myndinni, Dead Men Tell No Tales.

Johnny-Depp-johnny-depp-23896365-440-462

Leikstjórar myndarinnar eru þeir Joachim Ronning og Espan Sandberg, en þeir leikstýrðu hinni rómuðu Kon-Tiki frá árinu 2012. Jeff Nathanson, handritshöfundur Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull, Rush Hour 3 og The Terminal, situr nú sveittur við skriftir á handritinu fyrir myndina.

Upphaflega átti að sýna myndina árið 2015 en talið er að The Lone Ranger floppið hafi sett strik í reikninginn hjá Disney.

Pirates myndunum hefur gengið vel í bíó allt frá því sú fyrsta í leikstjórn Gore Verbinski var frumsýnd. Hún var tilnefnd til 5 Óskarsverðlauna og fékk frábæra aðsókn. Aðsókn á myndirnar dalaði þó með hverri mynd eftir það, en síðasta mynd, On Stranger Tides, frá árinu 2011, gekk vel utan Bandaríkjanna, og þénaði þar 804 milljónir Bandaríkjadala og þar með fór myndin yfir einn milljarð dala í tekjur á heimsvísu.