Perrar segja frá

Kvikmyndir.is fór að sjá Perragarðinn, eða Pervert Park, í gær í Tjarnarbíói, en myndin er á dagskrá RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík.

pervertÍ myndinni fáum við að kynnast nokkrum kynferðisbrotamönnum á skilorði sem búa í hjólhýsagarði í Flórída,  en í garðinum búa 120 kynferðisbrotamenn. Einnig er rætt við ráðgjafa sem heimsækir garðinn vikulega til að ræða við íbúana.

Eins og segir í kynningu á myndinni er nálgunin heiðarleg og umbúðalaus. Viðmælendur segja frá sínum málum, hvaða brot þau frömdu, ( barnaníð, nauðganir ) hvað gerðist áður en þau frömdu brotin, ( konan sem rætt var við var misnotuð af föður sínum og eignaðist son og misnotaði hann sjálf. Sonurinn sat svo í fangelsi fyrir misnotkun einnig ) og ráðgjafinn skýrir sína nálgun á málinu, en hann er gagnrýninn á samfélagið, og segir að allir græði á því að rætt sé við fólkið, því veitt aðstoð, og þannig megi koma í veg fyrir að viðkomandi brjóti af sér aftur og ítrekað jafnvel.

Einnig fær maður að sjá hvernig fylgst er með hverju skrefi fólksins í gegnum ökklabönd, auk þess sem allskonar öpp geri manni kleift að fletta þessu fólki upp og sjá ýmsar upplýsingar um það, og fylgjast með því.

Þetta er eftirminnileg mynd, látlaus en oft átakanleg og persónuleg. Við fáum þó bara að kynnast einni hlið mála, en maður fann að flest fólkið amk. sem rætt var við var að vinna í sínum málum og vonaðist eftir að geta lifað sæmilega eðlilegu lífi, þrátt fyrir að lifa með sínu broti og brotum alla ævi.