Listamaðurinn Olly Moss hefur lengi haldið uppi vefsíðu þar sem hann hannar plaköt fyrir kvikmyndir, bæði gamlar og nýjar. Nýlega fréttist að LucasArts hefðu beðið Moss að búa til plaköt fyrir upprunalega Star Wars þríleikinn í tilefni 30 ára afmælis The Empire Strikes Back.
Plakötin má sjá hér fyrir neðan, en plaköt fyrir myndir á borð við Die Hard og The Dark Knight má sjá á vefsíðu Moss. Um sköpunarferlið sagði Moss, „Hver getur sagt nei við Star Wars? Það er svo mikið af flottum Star Wars listaverkum þarna úti að ég var dauðhræddur. Ég byrjaði á því að horfa á allar myndirnar með blað og penna mér við hlið. Markmiðið var að skapa eitthvað nýtt, en samt sem áður eitthvað sem minnti fólk á Star Wars, persónurnar og heiminn.“