Ólíklegt að Gibson verði í framhaldsmyndinni – „Á ég eftir að fá AIDS?“

Leikstjórinn og fyrrum stórleikarinn Mel Gibson hefur eina ferðina enn komið sér í sviðsljósið vegna umdeildra ummæla í garð gyðinga og Hollywood-bransinn farinn að bregðast við í takt. Andúðin að sinni gaus upp eftir að breski miðillinn Sunday Times birti viðtal við leikkonuna Winonu Ryder, þar sem hún rifjar upp kynni sín við Gibson og framkomu hans.

Í viðtalinu ræðir Ryder bakgrunn sinn, en hún heitir réttu nafni Winona Laura Horowitz og er gyðingur. Árið 2010 hafði leikkonan áður vakið athygli fyrir sömu frásögn af Gibson, þá í viðtali við tímaritið GQ og sagði þar meðal annars: „Hann er hommafælinn kynþáttahatari, en á þeim tíma trúði enginn mér.“

Þessi umræddu kynni áttu sér stað í veislu í Hollywood árið 1995 og sagði leikkonan það vera augljóst að Gibson hafi verið drukkinn. „Ég var með vini mínum, sem er samkynhneigður og Mel segir við hann: „Bíddu, á ég eftir að fá AIDS?“ Síðan var eitthvað talað um gyðinga og hann sagði: „Þú ert ekki ein af þeim sem forðast ofninn, er það nokkuð?““ segir Ryder en orð Gibsons [„oven dodger“] vísa í gasklefa.

Hatursorðræður Gibsons urðu almenningi opinberar árið 2006, þegar hann var handtekinn fyrir að keyra fullur og hreytti í lögregluþjóninn orðunum: „Helvítis gyðingar… gyðingar bera ábyrgð á öllum stríðum í heiminum. Ert þú gyðingur?“

Kjúklingaflóttinn og Jesús

Á skömmum tíma hefur upprifjun Ryders sett tístara og aðra samfélagsmiðla á flug og furða sig margir á því nú af hverju Gibson er enn starfandi í bransanum, en fyrir utan gyðingahatrið hefur hann einnig tjáð andúð sína í garð hinsegin fólks og beitt allavega eina kærustu sína ofbeldi.

Eins og staðan er í dag eru nokkrar kvikmyndir í burðarliðnum hjá Gibson, þó aukna umtalið gæti haft áhrif á komandi verkefni. Í samtali við fréttavef The Wrap segir heimildamanneskja að framleiðslufyrirtækið Aardman Animations muni ekki sækjast eftir raddleik Gibsons fyrir teiknimyndina Chicken Run 2.

Streymisveitan Netflix sér um dreifingu á framhaldsmyndinni, en liðin eru 20 ár frá því að sú fyrri var frumsýnd við miklar vinsældir. Gibson fór þar með eitt af aðalhlutverkunum sem monthaninn Rocky. Í Chicken Run 2 mun persónan snúa aftur ásamt ýmsum fleirum úr fyrri myndinni, en þó framleiðsla framhaldsins sé enn á forvinnslustigi þykir afar líklegt að fenginn verði annar raddleikari.

Leikstjóri Chicken Run 2 er Sam Fell, sem áður hefur unnið með Aardman að teiknimyndinni Flushed Away og var hann einnig annar leikstjóri ParaNorman fyrir framleiðsluverið Laika. Sú mynd hlaut stórgóðar viðtökur gagnrýnenda og var tilnefnd til Óskars árið 2013 í flokki bestu teiknimyndar.

Ekki er þó enn vitað hver staðan er á framhaldi The Passion of the Christ, sem Gibson hefur lengi verið orðaður við að leikstýra. Þeir handritshöfundurinn Randall Wallace hafa lengi verið með myndina á teikniborðinu en myndin fjallar í grunninn um upprisu Jesús og er sögð vera epísk og rándýr í framleiðslukostnaði.