Fyrsta stiklan úr nýjustu mynd Mark Wahlberg, hinni sannsögulegu Deepwater Horizon, er komin út, en í myndinni er fjallað um atburðina árið 2010 á olíuborballi BP olíufyrirtækisins á Mexíkóflóa, og það sem gerðist á síðustu 48 tímunum áður en sprenging varð um borð með þeim afleiðingum að 11 manns létu lífið og 16 slösuðust, auk þess sem mikið umhverfisslys varð þegar olía fór í flóann.
Myndin segir sögur af hetjuskap í kringum atvikið, hluti sem ekki var fjallað um opinberlega á sínum tíma, en komu fram í rannsókn á atburðunum eftir á, og birtust í grein dagblaðsins New York Times undir heitinu Deepwater Horizon’s Final Hour.
Í stiklunni er fléttað saman atburðum um borð á borpallinum og notalegri fjölskyldustund við eldhúsborðið þar sem dóttir Wahlberg endurspeglar slysið, og starf föður hennar, með því að nota gosdós, þar sem drykkurinn gýs upp eins og olía.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:
Með helstu önnur hlutverk fara Kate Hudson, Kurt Russell og John Malkovich.
Myndin kemur í bíó 30. september nk.