Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík sem haldin var í Bíó Paradís er nú lokið, en samkvæmt fréttatilkynningu frá hátíðinni þá hlaut hátíðin stórkostlegar viðtökur. Það var ofurhetjumyndin Antboy sem fékk áhorfendaverðlaun hátíðarinnar.
„Fjölbreytt og spennandi efnistök hátíðarinnar vöktu almenna hrifningu og stóð upp úr sú gífulega þrjúbíósstemning sem myndaðist á nokkrum vinsælustu sýningum hátíðarinnar, sem vakti upp mikla nostalgíu meðal eldri gesta hátíðarinnar. Skólasýningar sem í boði voru virka daga hátíðarinnar að kostnaðarlausu slógu einnig í gegn,“ segir einnig í tilkynninguni.
Á meðan hátíðinni stóð gafst gestum kostur á að velja sína uppáhalds mynd og greiða henni atkvæði sitt. Átta myndir voru tilnefndar, Antboy, Andri og Edda verða bestu vinir, Dagur krákanna, Á leið í skólann, Fótboltadraumar, Klara og leyndarmál bjarndýranna, Þyngd fílanna og Austanvindur.
Myndin um ofurhetjuna Antboy hlaut flest atvæði og var einnig með bestu meðaleinkunnina þó mjótt hafi verið á mununum.
Antboy og Andri og Edda verða bestu vinir munu halda áfram í almennum sýningum samkvæmt tilkynningu bíósins.