Kvikmyndaleikarinn Robert De Niro er, samkvæmt Hollywood Reporter fréttaveitunni, líklegur til að fara í skó ofur-fjársvikarans Bernie Madoff. Kapalsjónvarpsstöðin HBO hefur keypt kvikmyndaréttinn að sögunni The Wizard of Lies: Bernie Madoff and the Death of Trust, eftir Diane Henrique. Bókin kom út í síðasta mánuði og fjallar um Madoff sem sveik milljónir og milljarða út úr grandalausum viðskiptavinum sínum í einni mestu svikamyllu sögunnar.
De Niro, og félagi hans hjá Tribeca framleiðslufyrirtækinu, Jane Rosenthal, ætla að framleiða myndina, en De Niro kemur líklega til með að leika sjálfan svikarann.
HBO hefur undanfarið verið að vinna með sögur sem eru byggðar á atburðum sem farið hafa hátt í fjölmiðlum. Mynd þeirra Too Big To Fail, sem fjallar um fjármálakreppuna sem hófst árið 2008, fer í loftið í þessum mánuði, og verið er að taka upp myndina Game Change, um forsetakosningarnar árið 2008. Þar er stórstjarnan Julianne Moore í hlutverki Sarah Palin.