Íslenska „netvídeóleigan“ Icelandic Cinema Online frumsýnir í dag íslensku kvikmyndina Sóley eftir Rósku frá árinu 1982. Í tilkynningu frá Icelandic Cinema Online segir að myndin hafi verið ófáanleg í mörg ár. Upprunalega filman sé týnd og einungis hafi afrit af myndinni varðveist.
Sjáðu stiklu úr Sóley hér fyrir neðan:
Sóley var frumsýnd 4. apríl 1982 eftir langt og strangt framleiðsluferli. Leikstjórn og handrit var í höndum Rósku og Manrico Pavolettoni. Með aðalhlutverk fara Rúnar Guðbrandsson og Tine Hagedorn.
Í tilkynningu Icelandic Cinema Online segir að myndin hafi ekki fengið neina styrki og hafi því alfarið verið fjármögnuð með öðrum leiðum, sem tafði framleiðsluna mikið.
„Sagan er um frelsi og kúgun. Hún gerist á Íslandi í harðindum nítjándu aldar og segir söguna af Þór, ungum bónda, sem lendir í því að hestarnir hans flýja. Í leit að hestunum ferðast hann um óbyggðir hálendisins og kynnist þar álf-mærinni Sóley sem fylgir honum á leið sinni yfir hálendið. Í heimildarmynd um Rósku, sem er einnig fáanleg á Icelandic Cinema Online, er myndinni lýst sem rammpólitískri á táknrænann hátt, þar sem hestarnir tákna frelsið og huldufólkið kommúnismann. Sóley táknar undirmeðvitundina og Þór er meðvitundin, hún drauminn og hann veruleikann.“
Gott úrval af íslenskum myndum
Icelandic Cinema Online býður uppá íslenskt kvikmyndaefni á netinu. Vefurinn var opnaður í maí 2011. Heimsóknir á síðuna eru á milli 5.000-10.000 á mánuði og 85% af umferðinni kemur erlendis frá. Metnaður er lagður í að hafa gott úrval af íslenskum myndum og vikulega eru settar inn nýjar myndir, að því er segir í tilkynningunni frá vefsíðunni.
Smelltu hér til að sjá Sóley á vef Icelandic Cinema Online.