Three Billboards Outside Ebbing, Missouri verður frumsýnd á morgun, föstudaginn 19. janúar í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói, Akureyri.
Myndin er kolsvart gamandrama frá Óskarsverðlaunahafanum Martin McDonagh (In Bruges) og segir frá Mildred Hayes (Frances McDormand), fráskilinni móður sem hefur ekki enn jafnað sig á hrottalegu morði sextán ára dóttur sinnar. Sjö mánuðir eru nú liðnir síðan atvikið átti sér stað og hafa ekki enn fundist neinar ábendingar eða sannanir um afbrotamann.
Mildred er orðin langþreytt á aðgerðarleysi lögreglunnar í smábænum Ebbing í Missouri, þannig að hún tekur djarfa ákvörðun og stillir upp þremur skiltum við bæjarmörkin, með umdeildum skilaboðum handa lögreglustjóranum William Willoughby (Woody Harrelson). Lögreglumennirnir kunna ekki við það að láta hafa sig að fíflum og brátt fer spennan að magnast upp á milli Mildred og yfirvaldsins, með léttgeggjaðri en sömuleiðis átakanlegri útkomu.
Áhugaverðir punktar til gamans:
-Þótt Three Billboards Outside Ebbing, Missouri fari ekki í almenna dreifingu fyrr en í janúar hefur hún víða verið sýnd á kvikmyndahátíðum og hlotið frábæra dóma og fjölda verðlauna. Hún er núna
tilnefnd til sex Golden Globe-verðlauna (sem verða afhent 7. janúar) og á örugglega eftir að hljóta nokkrar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna. Þegar þetta er skrifað er myndin með 8,5 í einkunn á
Imdb, 8,7 á Metacritic og 9,3 á RottenTomatoes. Þetta er sannarlega mynd sem enginn sannur kvikmyndaaðdáandi má missa af í bíó.
-Bærinn þar sem sagan í myndinni gerist og er kallaður Ebbing er íraun smábærinn Sylva í Norður-Karólínuríki. Margir af bakgrunnsleikurunum sem bregður fyrir í myndinni eru í raun íbúar Sylva.
Leikstjórn: Martin McDonagh
Leikarar: Frances McDormand, Sam Rockwell, Woody Harrelson, Caleb Landry Jones
Kíktu á stiklu og plakat hér fyrir neðan: