Sena frumsýnir dönsku glæpamyndina Skýrsla 64 í dag, föstudaginn 25. janúar í í Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.
Í tilkynningu frá Senu segir að hér sé á ferðinni frábær spennumynd byggð á metsölubók eftir Jussi Adler-Olsen sem skapað hafi sér sess meðal fremstu glæpasagnahöfunda Norðurlandanna með bókum sínum um Deild Q: Konan í búrinu, Flöskuskeyti frá P og Veiðimennirnir.
Söguþáðurinn er á þessa leið: Árið 1987 hurfu nokkrar manneskjur í Kaupmannahöfn um svipað leyti án þess að vitað væri til að þær tengdust á nokkurn hátt. Rúmum tuttugu árum seinna vekja þessi mannshvörf athygli Carls Mørk og félaga hans, Assads og Rose, hjá Deild Q í dönsku lögreglunni.
Smám saman rekja þau óljósa slóð, annars vegar til þekkts læknis og forystumanns í nýjum stjórnmálaflokki og hins vegar til Sprogeyjar þar sem lengi var hæli fyrir afvegaleiddar stúlkur.
Sá staður reyndist mörgum vistmönnum helvíti á jörð. Og til eru þeir sem vilja frekar drepa vitnin en láta ýmislegt sem þar gerðist komast upp.
Áhugaverðir punktar til gamans:
-Skýrsla 64 var frumsýnd í heimalandinu, Danmörku, í byrjun október og setti aðsóknarmet þegar meira en 215 þúsund manns sáu hana í kvikmyndahúsum í opnunarvikunni. Myndin hefur einnig hlotið afar góða dóma gagnrýnenda og er af mörgum þeirra, svo og almennum áhorfendum, talin besta myndin til þessa af þeim fjórum sem gerðar hafa verið um þá Carl Mørck og Assad í deild Q.
Leikstjórn: Christoffer Boe
Helstu leikarar: Fares Fares, Nikolaj Lie Kaas
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: