Kvikmyndin Joy verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 1. janúar í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.
Joy er fjölskyldusaga sem spannar fjórar kynslóðir og er saga konu sem rís til hæstu metorða sem stofnandi og stjórnandi valdamikils fjölskyldufyrirtækis.
Aðalpersónan Joy, sem leikin er af Jennifer Lawrence, er stúlka sem stofnar viðskiptaveldi þegar hún vex úr grasi og verður nokkurs konar höfuð fjölskyldunnar. Svik, undirferli, glatað sakleysi, ástir og afbrýði koma við sögu í myndinni sem fjallar um að vera ættmóðir og stofnandi viðskiptaveldis í hörðum heimi.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Joy er eftir leikstjórann David O Russell (Silver Linings Playbook, American Hustle) og fjallar líkt og fyrri myndir hans um fjölskyldu, tryggð og ást.
Myndin skartar auk Lawrence stórum stjörnum á borð við Robert De Niro, Bradley Cooper Isabellu Rosselini og Virginiu Madsen.
Áhugaverðir punktar til gamans:
– Joy er þriðja myndin í röð sem David O. Russell gerir með þeim Jennifer Lawrence, Bradley Cooper og Robert De Niro, en hinar tvær eru American Hustle og Silver Linings Playbook. Þess utan á David að baki myndir eins og The Fighter, I Heart Huckabees, Three Kings og Flirting with Disaster.
– Myndir Davids O. Russell hafa hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar í gegnum árin enda allt saman gæðamyndir. Þrjár síðustu myndir hans hafa t.d. hlotið 25 Óskarsverðlaunatilnefningar og þar af hefur hann sjálfur hlotið fimm tilnefningar fyrir leikstjórn sína og handrit. Það kemur síðan í ljós þann 14. janúar hve margar Óskarsverðlaunatilnefningar Joy hlýtur en myndin er nú tilnefnd til tvennra Golden Globe-verðlauna, sem besta mynd ársins og fyrir leik Jennifer Lawrence í aðalhlutverkinu.
– Sagan og handritið að Joy er skrifað af David O. Russell og Annie Mumolo, en hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2012 fyrir handritið að gamanmyndinni vinsælu, Bridesmaids.