Kvikmyndaverið Universal Pictures hefur ekki enn gefist upp á því að blása nýju lífi í sígilda skrímslasafn sitt (sem samanstendur af Drakúla, múmíunni, sköpun Frankensteins o.fl.) og þeirra tilheyrandi fígúrur. Á meðal þeirra er skepnuveiðarinn alræmdi, Abraham Van Helsing, sem nú á að endurlífga með nýjum áherslum.
Leikstjórinn Julius Avery (Overlord) mun sitja við stjórnvölinn og verður hinn góðkunni James Wan einn af lykilframleiðendum. Wan er sennilega þekktastur fyrir að hafa leikstýrt upprunalegu Saw-myndinni ásamt því að hafa komið af stað Insidious og Conjuring-seríurnar. Wan hefur átt þátt í framleiðslu á fjölmörgum hrollvekjum, til að mynda Annabelle-myndunum, Lights Out, The Nun og The Curse of La Llorona.
Þá hefur Wan einnig getið af sér prýðisorð sem hasarleikstjóri með Aquaman og Fast & Furious 7.
Þessi endurræsing á Van Helsing mun ekki með neinu móti tengjast samnefndri Hugh Jackman-mynd frá 2004, þar sem titilhetjan lenti upp á kant við klassíska erkióvin sin, Drakúla, en gekk þó þar undir nafninu Gabriel.
Á sínum tíma bjuggust þó framleiðendur Universal við stórsmelli og vonuðust eftir langlífri seríu með Jackman í fararbroddi, en aðsóknartölur stóðust ekki væntingar og fóru allar hugmyndir um framhöld þá á ís. Allt útlit er fyrir að svo verði varanlega.
Mætti í rauninni segja að kvikmyndaverið hafi upplifað sambærileg vonbrigði með aðsókn og viðtökur myndanna Dracula Untold og The Mummy með Tom Cruise, sem áttu að hrinda af stað nýjum myndabálki með vonir um að sameina helstu Universal-skepnurnar. Til að bæta gráu ofan á svart hafði stúdíóið þar áður blætt miklum peningum í endurgerðina á The Wolfman (2010), sem flestir virtust yppa öxlum yfir, gagnrýnendur sem og almennir áhorfendur.
Má þó geta þess að The Invisible Man, sem kom út fyrr á þessu ári, vakti mikla athygli og skilaði gífurlegum hagnaði í kassann. Sú mynd, sem kostaði litlar sjö milljónir Bandaríkjadollara og græddi um 130 milljónir á heimsvísu, kom úr smiðju ástralska kvikmyndagerðarmannsins Leigh Whannell, sem reglulega hefur unnið með Wan í gegnum feril þeirra beggja.
Ekki er vitað meira um tilvonandi Van Helsing endurgerðina; hvorki nálgun né hugmyndir um leikara, en reikna má fastlega með að það skýrist á komandi mánuðum.