Nýr trailer er kominn fyrir nýjustu mynd hins fransk-pólska leikstjóra Roman Polanski, Carnage.
Myndin er byggð á Broadway leikritinu God of Carnage eftir Yasmina Reza, sem hefur notið mikilla vinsælda.
Aðalhlutverk í myndinni leika þau Jodie Foster, Kate Winslet, John C. Reilly og Christoph Waltz.
Myndin verður opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í New York sem hefst þann 30. september nk.
Eins og gefur að skilja þá mun Roman Polanski verða fjarri góðu gamni, þar sem yfir honum vofir handtökuskipun í Bandaríkjunum, eftir að hann flúði land árið 1977, eftir að hann var ákærður fyrir að hafa átt kynmök við 13 ára stúlku.
Smellið hér til að skoða trailerinn á síðu myndarinnar.
Síðasta mynd Polanskis var The Ghost Writer með þeim Ewan McGregor og Pierce Brosnan í hlutverkum ævisöguritara forsætirsráðherra Bretlands, og forsætisráðherra Bretlands.
Carnage wegir frá tveimur foreldrum, sem ákveða að hittast og ræða málin eftir að synir þeirra verða uppvísir að slagsmálum á skólalóðinni. Í ljós kemur síðan að atvikið leiðir fram í dagsljósið ýmis vandamál og hluti sem þarf að ræða í samböndum beggja foreldra.
Leikritið sem myndin er byggð á hefur gamansaman undirtón, og er fremur um hegðun og framkomu í nútíma hjónabandi, heldur en greining á hjónabandinu sem slíku.
Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 16. desember.