Tökum lauk nýverið á nýrri spennuþáttaröð sem nefnist Reykjavík 112 og er byggð á metsölubók Yrsu Sigurðardóttur, DNA.
Ung kona er myrt á óhugnanlegan hátt í Reykjavík að sjö ára dóttur sinni ásjáandi. Rannsóknarlögreglumaðurinn Huldar (Kolbeinn Arnbjörnsson) fer fyrir rannsókn málsins og fær sér til aðstoðar barnasálfræðinginn Freyju (Vivian Ólafsdóttir) til að sjá um unga vitnið, sem er í áfalli, og fá hana til að segja frá því sem hún sá. Nánasti samstarfsmaður Huldars á deildinni er Rikki (Þorsteinn Bachmann). Þegar það fréttist að vitni hafi verið að morðinu fer af stað atburðarás þar sem hver mínúta skiptir máli til að klófesta morðingjann, sem talið er að muni leggja til atlögu við vitnið. Þegar annað hrottalegt morð er framið, sem virðist tengjast hinu fyrra, magnast þrýstingur á Huldar og rannsóknar deildina frá yfirboðurum og samfélagsmiðlum um að finna hinn seka strax.
Meðal leikara í þáttunum Reykjavík 112 eru: Valdís Brynja Finnsdóttir, María Ellingsen, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Laufey Elíasdóttir, Jón Símon Gunnarsson, Zlatko Krickic, Arnór Björnsson, Onni Tommila, Mikael Emil Kaaber, Monika Ewa Orlowska, Bergur Ebbi Benediktsson og Björn Stefánsson.
Reykjavík 112 er í leikstjórn Reynis Lyngdal, Óskars Þórs Axelssonar og Tinnu Hrafnsdóttur. Höfundur handrits er Óttar M. Norðfjörð. Aðrir handritshöfundar eru Björg Magnúsdóttir og Snorri Þórisson.
Einnig í Evrópu
Í fréttatilkynningu kemur fram að þáttaröðin verði frumsýnd á Sjónvarpi Símans 10. apríl 2025. Einnig munu Sjónvarpsstöðvarnar ARTE í Frakklandi og Þýskalandi, auk Finnlands, hefja sýningar seint á sama ári.
Kvikmyndamiðstöð Íslands og Norræni Kvikmynda- og Sjónvarpssjóðurinn styrktu gerð þáttanna.
Aðalframleiðandi Reykjavík 112 er Snorri Þórisson, en þættirnir eru íslensk-þýsk samframleiðsla og meðframleiðendur eru Christian Friedrichs og Ralph Christians. SagaFilm sér um framleiðsluþjónustu. Alheimsdreifing verður í höndum danska dreifingarfyrirtækisins REINVENT STUDIOS.
Yrsa hæstánægð
Í tilkynningunni kemur fram að Yrsa Sigurðardóttir, höfundur skáldsögunnar DNA, sem þættirnir byggja á, sé hæstánægð með aðlögunina: „Við heimsókn mína á tökustað varð mér ljóst að teymið hefur staðið sig stórkostlega í því að færa spennuna og dýptina úr bókinni DNA yfir á sjónrænt form. Ég get ekki beðið eftir að áhorfendur upplifi spennuna og dramatíkina sem við höfum lagt svo mikla vinnu í að skapa.“