Ný kvikmynd byggð á sögu bardagasnillingsins Bruce Lee hefur verið staðfest. Myndin ber heitið Birth of the Dragon og mun George Nolfi leikstýra myndinni, en hann hefur áður leikstýrt myndum á borð við The Adjustment Bureau.
Birth of the Dragon er byggð á sönnum atburðum og fjallar um einvígi sem Lee háði við annan kung fu-meistara, Wong Jack Man, í San Francisco á sjöunda áratug síðustu aldar og uppgang Lees í kjölfarið.
„Bardaginn var ekki myndaður. Það voru örfáir sem urðu vitni að þessu.“ segir á vefsíðunni Variety.
Bruce Lee setti mark sitt á kvikmyndabransann með framúrskarandi bardagasenum. Fyrsta framkoma hans í sjónvarp var í sjónvarpsþáttunum Green Hornet og leiddi það til velgengi hans í sjónvarpi. Fyrsta aðalhlutverk hans var árið 1971 í myndinni The Big Boss og naut hún mikilla vinsælda í Asíu og hlutverkið kom honum á kortið.