Nú þegar heimurinn hefur séð hina sterku kvenpersónu sem Katniss Everdeen er, er við hæfi að í dag hafi verið frumsýnd ný kitla úr lokakafla Twilight myndanna sem skarta hugsanlega einni veikustu kvenpersónu í sögu bókmennta og kvikmynda. Breaking Dawn: Part 2, sem frumsýnd verður 16. nóvember, hefst þar sem frá var horfið í seinustu mynd; Bella er nú orðin vampíra og nýtur nýja lífsins og alla kostina sem því fylgja. En hamingjan endist skammt þegar Cullen fjölskyldan, ásamt heri vampíruætta hvaðanæva að úr heiminum, þurfa að mæta Volturi-ættinni í eitt skipti fyrir öll til þess að sannfæra þau um að Renesmee, hið nýfædda barn þeirra Edwards og Bellu, sé í raun þeirra afkvæmi en ekki ódauðlegt barn (barni sem var umbreytt í vampíru) og ógni því ekki hinni leynilegu tilvist vampíra.
Kitlan sem frumsýnd var í dag er stutt og sýnir lítið annað en Bellu sem er, sem áður segir, að njóta nýja lífsins sem vampíra og kraftana sem hún hefur öðlast.
Persónulega er ég spenntust fyrir því að sjá hvernig hlutverk Renesmee (sem er leikin af hinni 12 ára gamalli og ótrúlega krúttlegu Mackenzie Foy) verður tæklað. Stephenie Meyer lýsti því sjálf yfir á sínum tíma að erfitt yrði að finna barn sem gæti leikið hina hálfa vampíru og hálfa mennska barn sem Renesmee er í sögunum þar sem hún á að vera frá fæðingu fullkomlega meðvituð um umhverfið í kringum sig og þroskast afar hratt.
En þó að þetta sé lokakaflinn í Twilight sögunni þýðir ekki að þetta munu vera endalok kvikmyndanna um Bellu og Edward Cullen. Eins og kvikmyndir.is hefur áður greint frá þá hefur framkvæmdarstjóri Lionsgate, Jon Feltheimer, sagt að þar sem búist er við að Breaking Dawn: Part 2 muni hala inn 700 milljónum Bandaríkjadala í miðasölu um heim allan voni hann að einhver leið verði fundin til þess að serían geti haldið áfram (…að mala gull fyrir Lionsgate).
Svo hugsanlega góðar fréttir fyrir hörðustu aðdáendur Twilight myndanna en slæmar fréttir fyrir þá sem neyðast til þess að horfa á þær með makanum. En hvernig fannst ykkur kitlan? Eru einhverjir lesendur kvikmyndir.is spenntir yfir þessari mynd?