Edmund Blackadder og hinn tryggi skósveinn hans Baldrick, eða Baldrekur eins og hann kallaðist í íslenskri þýðingu, gæti verið á leiðinni aftur á skjáinn, þ.e. ef hægt verður að safna nægu fé til að borga laun Hugh Laurie.
Sir Tony Robinson, sem lék Baldrek, í fjórum vinsælum sjónvarpsseríum á níunda áratug síðustu aldar á BBC, sagði að ný sería væri í vinnslu, en það væri háð því hvernig gengi að krækja í Hugh Laurie, sem lék eitt af þremur stærstu hlutverkunum.
Robinson sagði í gríni að það gæti orðið þrautin þyngri að ná í Laurie, þar sem hann væri orðinn stórstjarna í Bandaríkjunum, sérstaklega eftir leik sinn í sjónvarpsþáttunum vinsælu House.
„Ég hef talað við nær allt leikaraliðið um þetta. Eina vandamálið eru launin hans Laurie. Hann er stórstjarna núna – eða hann vill amk. halda það sjálfur.“
Talið er að Laurie hafi fengið greidd 250 þúsund sterlingspund, jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna, fyrir hvern þátt sem hann lék í af House þegar sú þáttaröð var á hátindi vinsælda sinna, en serían var í sjónvarpinu frá 2004 – 2012. House fjallaði um sérvitran en bráðsnjallan lækni að nafni Dr. Gregory House.
Áður en hann lék í House var hann vinsæll gamanleikari, og lék í ýmsum vel þekktum breskum þáttum, eins og með Blackadder meðleikara sínum Stephen Fry í Jeeves and Wooster, svo dæmi sé tekið.
Aðalhlutverkið í Blackadder lék gamanleikarinn Rowan Atkinson, en hann lék eftir það í Mr. Bean og í Johnny English m.a.
Blackadder voru sögulegir þættir og persónurnar byrjuðu á miðöldum í fyrstu þáttaröðinni en enduðu saman í fyrri heimsstyrjöldinni.