Gamanleikarinn Jim Carrey er ekki við eina fjölina felldur. Nú er komin út barnabók eftir kappann, sem akkúrat þessa stundina er við tökur á Dumb and Dumber to, framhaldi hinnar sígildu gamanmyndar Dumb and Dumber.
Samkvæmt Carrey þá „er bókin, sem er 64 blaðsíður að lengd, um öldu að nafni Roland sem er hrædd um það, að einn daginn, þegar hún skellur á ströndinni, þá muni hún deyja. En þegar hann hugsar málið betur þá uppgötvar hann að hann er ekki bara alda, heldur er hann allur sjórinn! Þetta sýnir hvernig mannkynið er allt samtengt og myndlíkingin er alda í sjónum.“
Carrey segir í samtali við E! online vefinn að innblásturinn komi úr hræðslu sem hann hafði sem barn. „Þegar ég var barn,“ segir Carrey, „þá voru foreldrar mínir reykingafólk og ég óttaðist að þau myndu deyja … og hvað yrði þá um mig? Ég held að það sé algengur ótti hjá börnum – óttinn við missi. Þetta er snemmbúin tilvistarleg kreppa, ef hægt er að orða það þannig.“
„En þegar við uppgötvum að undir yfirborðinu – þegar athafnir okkar eru skoðaðar – þá erum við öll samtengd, við erum öll samtengd orka, og þá minnkar óttinn. Stundum hverfur hann alveg. Það virkar amk. fyrir mig.“
„Við látum börnin okkar finnast þau vera örugg með því að segja þeim sögur, og að það góða sigri hið illa.“
Bókin kemur einnig út sem rafbók og með henni fylgja fjögur lög eftir Carrey sem hann syngur sjálfur ásamt dóttur sinni, Jane Carrey.