Notendur segja sitt álit

Notendur kvikmyndir.is hafa verið iðnir við umfjallanaskrif að undanförnu, bæði um nýjar og eldri myndir. Sölvi Sigurður skrifar til dæmis um nýja mynd, geimverumyndina Battle: Los Angeles. Myndin stóð ekki alveg undir væntingum: „Two Face leikarin Aaron Eckhart er í alvörunni með tvö andlit. Eitt gott og eitt verulega slæmt, hann sýndi sitt slæma hér. Battle: LA er ekki mynd, heldur ein stór eftir-herma. Hún hermir eftir myndum og gerir það ekki einu sinni vel. Battle: LA hermir eftir: The Hurt Locker, District 9, (held ég) Skyline, Independence Day og flest drama-atriði í kvikmyndasögunni,“ segir Sölvi meðal annars.

Ásgeir Hjálmar Gíslason hefur verið iðinn við skrif undanfarið og í nýjustu umfjöllun sinni ræðir hann myndina Unstoppable: „Ég varð því miður fyrir vonbrigðum með myndina því þeir geta gert miklu betur en þetta. Þegar ég sá trailerinn fyrst þá datt mér svona í hug að þetta gæti verið hörku spennandi mynd en nei,nei því hún verður fyrst spennandi á síðasta hálftímanum þá myndast smá spenna í henni,“ segir Ásgeir meðal annars.

City of God verður Sæunni Gísladóttur tilefni til skrifa, en þessi mynd er einmitt sýnd á brasilískum kvikmyndadögum í félagsvísindadeild Háskóla Íslands þessa dagana: „City of God er stórkostleg mynd sem ekki má láta framhjá sér fara. Maður þarf samt að gíra sig upp fyrir hana, það er ekki hægt að fylgjast með textanum þegar maður er þreyttur og sagan er frekar löng.
Skylduáhorf!,“ segir Sæunn meðal annars.

Már skrifar síðan um stórmyndina Avatar: „Þessi mynd er með frábærar tæknibrellur, góða leikara en lítið meira,“ segir Már meðal annars.

Að lokum er það svo dómur frá notanda um nýjustu íslensku myndina, Kurteist fólk, en það er Nói Kristinsson, sem á þann dóm: „Í gegnum kvikmyndina fylgjumst við með Lárusi sem er leikinn af Stefáni Karli þar sem hann tekst á við lífið og pólitíkina út á landi. Ég verð að taka sérstaklega ofan af fyrir Stefáni Karli þar sem hann er í raun „Larger than life“ leikari sem leikur með öllum líkamanum en Ólafi leikstjóra tekst að skapa persónu sem hefur tapað öllu, persónu sem ólgar að innan en getur ekki hleypt því út,“ segir Nói meðal annars.

Öllum er frjálst að skrifa umfjallanir um kvikmyndir, gamlar og nýjar, á kvikmyndir.is. Auk þess geta notendur bætt við myndum ef þær finnast ekki í gagnagrunni okkar, og bætt inn upplýsingum um einstakar myndir.