Nolan-veisla Sambíóanna handan við hornið

Síðastliðinn apríl tilkynnti Kvikmyndir.is í samvinnu við Sambíóin að útvaldir titlar frá leikstjóranum Christopher Nolan færu í sýningar í maí, en í ljósi yfirvofandi óvissu um útgáfu TENET, nýjustu mynd kappans, auk annarra ástæðna, varð ekki úr þeirri veislu á þeim tíma.

Þó geta aðdáendur kvikmyndagerðarmannsins andað örlítið léttar þar sem nú eru komnir skráðir sýningartímar á myndirnar Inception, Interstellar, Batman Begins, The Dark Knight, The Dark Knight Rises og Dunkirk. Myndirnar verða í sýningum í Sambíóunum Álfabakka út júnímánuð, í það minnsta.

Hægt verður að sjá umræddar Nolan-myndir frá og með eftirtöldum dögum

Batman Begins – 10. júní
The Dark Knight – 12. júní
Dunkirk – 15. júní
The Dark Knight Rises – 17. júní
Inception – 19. júní
Interstellar – 22. júní

Margir bíða enn óþreyjufullir eftir nýjum fregnum af komandi stórmynd Nolans. Mikil leynd ríkir yfir söguþræði TENET en sumir í leikhópnum hafa jafnvel viðurkennt í fjölmiðlum að þeir hafi ekki hugmynd um hvað kvikmyndin fjallar um.

Eins og staðan er þegar þessi orð eru rituð er það enn á dagskrá að frumsýna þessa mynd þann 13. júlí næstkomandi. Veltur þó enn allt á framvindu kórónuveirunnar í stórum hluta heimsins. Annars þykir ekki ólíklegt að dagsetning myndarinnar verði færð, en talsmenn Sambíóanna vilja meina að ekkert sé niðurneglt, en fljótlega verði þó tilkynnt um hvort það breytist.

Tenet er dýrasta mynd Nolans til þessa. Hún kostaði um 205 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu en með markaðskostnaði og fleiru þarf myndin að hala inn hátt í 500 milljónir dala til að lenda ekki í mínus.