Leikstjórinn Christopher Nolan hefur loksins útskýrt endi myndarinnar Inception, sem margir hafa klórað sér í hausnum yfir.
Á útskriftarathöfn í Princeton-háskólanum fyrr í vikunni þar sem hann hélt ræðu sagði hann að fleiri aðdáendur hans hefðu spurt hann út í endinn á þessari mynd en nokkrum öðrum myndum hans.
Svo margar voru spurningarnar að oft laumaði hann sér út úr kvikmyndahúsum þegar hann var viðstaddur sýningar á Inception yfir til að sleppa við að þurfa að svara spurningum áhorfenda að henni lokinni.
Persóna Leonardo DiCaprio snýr skopparakringlu sinni í lokaatriðinu. Ef hún hefði snúist endalaust hefði hann líkast til verið fastur í draumaveröld einhvers annars en ef hún hefði stöðvast hefði hann verið staddur í raunveruleikanum. Myndinni lýkur áður en áhorfendur fá að sjá hvað gerist.
„Endirinn virkaði þannig að persóna Leonardo DiCaprio, Cobb – hann var með krökkunum sínum. Hann var í sínum eigin hugarheimi,“ sagði Nolan. „Honum var eiginlega orðið alveg sama og þess vegna verður pælingin sú að kannski eru öll stig raunveruleikans jafngild,“ sagði Nolan í frétt The Guardian.
Með skopparakringlunni vildi Nolan sýna fram á að skilin á milli raunveruleikans og drauma væru ekki eins skörp og margir halda. „Venjulega í svona ræðum [fyrir útskriftarnema] segir einhver eitthvað á borð við „eltu drauma þína“. En ég vil ekki segja ykkur það vegna þess að ég trúi því ekki. Ég vil að þig eltið raunveruleika ykkar.“
Nolan bætti við: „Mér finnst að eftir því sem tíminn líður förum við á einhvern hátt að líta á raunveruleikann sem „litla bróðir“ draumanna okkar. Ég vil færa rök fyrir því að draumar okkar, sýndarveruleiki okkar, þetta frábrugðna sem við njótum svo mikið og umlykjum okkur með, eru hluti af raunveruleikanum.“