Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter vefsíðunar þá fær The Dark Knight leikstjórinn Christopher Nolan vel greitt fyrir vinnu við nýjustu mynd sína, hina sögulegu Seinni heimsstyrjaldarmynd Dunkirk.
Samkvæmt fréttinni þá fær Nolan 20 milljónir Bandaríkjadala fyrirfram ( 2,3 milljarða íslenskra króna ) auk 20% af hagnaði myndarinnar. Sagt er að þetta sé besti samningur leikstjóra við framleiðendur, síðan Peter Jackson fékk samskonar samning fyrir mynd sína King Kong.
Samningurinn sýnir hve mikið traust framleiðendur bera til Nolan, sem er í guðatölu hjá aðdáendum sínum, og hefur gert velheppnaðar myndir, eins og Batman/The Dark Knight þríleikinn, Inception, Memento og fleiri.
Dunkirk er fyrsta mynd Nolan í fullri lengd síðan geimmyndin Interstellar (sem fékk reyndar misjafnar viðtökur ) var frumsýnd árið 2014.
Helstu leikarar í Dunkirk eru Tom Hardy, Mark Rylance, Kenneth Branagh, Cillian Murphy, Fionn Whitehead, Aneurin Barnard, Harry Styles, James D’Arcy, Jack Lowden, Barry Keoghan og Tom Glynn-Carney.
Þess má geta til gamans að hinn reyndi sviðsmynda- og tæknibrelluhöfundur Eggert Ketilsson lék stórt hlutverk við sviðsmyndagerð og listræna stjórnun á tökustöðum í Evrópu, þar sem mikið var lagt upp úr sem raunverulegustu sviðsmyndum fyrir myndina. Eggert hefur unnið náið með Nolan í öðrum verkefnum einnig.
Dunkirk fjallar um Operation Dynamo árið 1940, þegar næstum 340 þúsund hermenn bandamanna voru frelsaðir úr sjálfheldu Nasista, og er væntanleg í bíó 21. júlí nk.