Nicolas Cage er einn af duglegustu leikurum sinnar kynslóðar og hefur leikið í miklum fjölda kvikmynda, misjöfnum að gæðum, á 30 ára ferli sínum.
En hvaða kvikmyndir standa upp úr, að hans mati? Cage var nýlega í viðtali við Time tímaritið í tengslum við pólitíska dramað The Runner, og var þar spurður einmitt um það hver væru uppáhalds hlutverk hans, og hann hafði þetta að segja:
„Þau eru nú nokkur, vissulega. Ég held að við Werner [Herzog] höfum búið til eitthvað alveg sérstakt í Bad Lieutenant. Sömuleiðis við Mike Figgus í Leaving Las Vegas. Ég var mjög ánægður með Vampire´s Kiss, sem var að mínu mati næstum eins og sjálfstæð tilraunastofa fyrir mig þar sem ég prófaði villtustu drauma mína í kvikmyndaleik. Svo notaði ég það sem ég lærði í Vampire´s Kiss í stórri spennumynd, sem var Face / Off , með John Woo sem leikstjóra. Þegar maður lítur til baka á þessar myndir, þá sést hvar ég er að nota hluti sem ég uppgötvaði einmitt í Vampire´s Kiss.“
Svo mörg voru þau orð. Ertu sammála Cage, eða er hann á villigötum?