Tæp tvö ár eru liðin síðan þær fréttir bárust að skáldsaga Neil Gaimans, American Gods, væri á leið í sjónvarpsþáttabúning hjá HBO. Gaiman er frægastur fyrir myndasöguröðina The Sandman sem ruddi nýjar brautir innan geirans, en hefur sent frá sér fjölmargar skáld- og myndasögur (oft er mjótt á munum þar á milli) sem hafa skipað honum sess meðal framsæknustu og frumlegustu höfunda samtímans, ekki aðeins innan fantasíugeirans heldur fagurbókmennta almennt.
Því er ekki að undra að aðdáendur bíði spenntir eftir fréttum af væntanlegri sjónvarpsseríu. Á SXSW hátíðinni sem nú stendur yfir í Texas var Gaiman í opnu viðtali, þar sem hann færði nýjustu fréttir af stöðu mála bæði varðandi American Gods en líka fyrirhugaða kvikmynda- eða sjónvarpsþáttaaðlögun á Sandman. Fyrst ber að nefna að hvorugt er væntanlegt á næstunni. American Gods er enn á frumstigi hjá HBO, en Gaiman segir framleiðendurna bíða þolinmóða eftir fullkláruðu handriti hans að fyrsta þættinum. Hann vinnur nú að þriðja uppkasti og ekkert stress virðist vera hjá aðstandendum þáttaraðarinnar, sem veit eflaust á gott, þar sem skáldsagan er flókin og margþætt og að mörgu að huga, ekki aðeins svo efnið komist vel til skila í gegnum annan miðil, heldur líka ef HBO vill teygja söguna yfir fleiri en eina seríu.
Gaiman virðist fá að vera með puttana eins og hann lystir í aðlögun á American Gods, en hvað varðar mögulega aðlögun á Sandman segist hann lítið sem ekkert vita um framvindu mála, annað en að það sé enn í spilunum að gera eitthvað, hvort sem það verður kvikmynd eða sjónvarpssería. „Sandman er að öllu leyti í eigu DC sem þýðir Warner Bros,“ sagði Gaiman í viðtali á hátíðinni og bætti við að myndasagan fræga „gæti endað á stóra skjánum eða haldist hjá Warner Television. Þeir segja mér ekki neitt.“ Hvernig sem fer, þá eigum við eflaust eitthvað gott í vændum, þótt við þurfum að bíða áfram eftir frumsýningardögum, og vonum að biðin gefi vísbendingu um að vel verði staðið að framleiðslunni í báðum tilfellum.
Annars er það helst að frétta af Neil Gaiman að útvarpsleikritið Neverwhere hefur gang sinn nú í vikunni hjá Radio 4 á Englandi, en það byggir á skáldsögu Gaimans frá 1996 sem kom út samhliða sjónvarpsseríu með sama nafni. Gaiman segist vonast til að útvarpsuppfærslan muni kveikja áhuga yngri kynslóðar á útvarpsleikritum og úrvalslið leikara hefur verið fengið til að gæða orð meistarans lífi, m.a. James McAvoy og Sir Christopher Lee.