Tvær kvikmyndir sem fjalla um Baskavígin verða sýndar í flokknum Ísland í brennidepli á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem hefst í næstu viku. Í báðum myndum er hinum þekkta viðburði í íslenskri sögu gerð skil, þegar hópur baskneskra sjómanna var grimmilega myrtur hér á landi fyrir rétt rúmum fjögur hundruð árum síðan.
Myndirnar eru Killing of the Basque Whalers / Baskamorðin og The Slaying of the Basques / Baskavígin. Þó myndirnar fjalli báðar um hina þekktu atburði þá eru efnistök þeirra töluvert ólík en báðar myndirnar eru teknar að hluta til upp á Íslandi.
Í Baskamorðunum er sögð saga hóps fornleifafræðinga sem ferðast hingað til lands í leit að vísbendingum sem gætu varpað ljósi á atburðina. Fyrir heimildarmyndina Baskavígin voru mörg sviðsett atriði tekin upp hér á landi og tekið upp á ellefu stöðum. Fimm íslenskir áhugaleikarar eru í hlutverkum í myndinni og um 120 íslenskum aukaleikurum bregður fyrir.
Þeir atburðir sem nefndir eru Baskavígin urðu árið 1615 á Vestfjörðum en þá réðst lið heimamanna undir stjórn sýslumanns gegn hópum spænskra skipsbrotsmanna og drápu alls 32 menn. Atburðir þessir gerðust annars vegar á Fjallaskaga í Dýrafirði og hins vegar á Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.
Það er augljóst að Baskavígin eru mögum hugleikin um þessar mundir því nú á dögunum var tilkynnt að RVK Studios, í eigu Baltasars Kormáks, hefðu nýverið gert samframleiðslusamning við tvö spænsk framleiðslufyrirtæki um gerð kvikmyndar sem byggir á vígunum.