Náðu í appið
Bönnuð innan 14 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Skin I Live In 2011

(La piel que habito)

Justwatch

Frumsýnd: 14. október 2011

117 MÍNSpænska
Rotten tomatoes einkunn 81% Critics
The Movies database einkunn 70
/100
Keppti um Gullpálmann í Cannes.

Antonio Banderas fer hér með hlutverk lýtalæknisins Roberts sem hefur tekist að búa til nýja tegund af húð sem ekki er hægt að brenna né skaða á nokkurn hátt. Samstarfsmönnum sínum segir hann að við tilraunirnar hafi hann einungis notast við rottur. En það er fjarri því að vera satt. Á heimili sínu heldur hann ungri konu fanginni sem hann hefur... Lesa meira

Antonio Banderas fer hér með hlutverk lýtalæknisins Roberts sem hefur tekist að búa til nýja tegund af húð sem ekki er hægt að brenna né skaða á nokkurn hátt. Samstarfsmönnum sínum segir hann að við tilraunirnar hafi hann einungis notast við rottur. En það er fjarri því að vera satt. Á heimili sínu heldur hann ungri konu fanginni sem hann hefur notað sem tilraunadýr með hjálp þjónustustúlku sinnar, Marillu. En Robert hefur líka sínar eigin persónulegu ástæður fyrir tilraunum og valið á fórnarlambinu er alls ekki byggt á tilviljun. En kvöld eitt þegar Robert er að heiman ber son Marillu að garði. Sá er nýbúinn að fremja rán og hyggst dyljast í húsi Roberts. Þar með er ekki langt í að ljósi verði varpað á sannleikann í málinu og reynist hann óhugnanlegri en nokkur gæti ímyndað sér ...... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Vote for Pedro
The Skin I Live In er mynd sem sigrar hvort sem þér líkar vel við hana eða ekki, og það er vegna þess að það er ekki hægt að neita því að hún situr rosalega í manni eftir áhorfið. Hinn einstaki Pedro Almadóvar tæklar hérna sína fyrstu hrollvekju, þar sem óþægindin eru reyndar efnisleg og sálfræðileg en ekki sjónræn (hugsið Alfred Hitchcock með smá Cronenberg-fíling). Flestir sem hafa skrifað um þessa mynd eru sammála um að það sé mjög erfitt að gera það án þess að segja frá því sem einkennir söguna mest, og það er það sem flestir eru líklegastir til þess að ræða um eftirá. Frekar kýs ég þó að vera óljós í stað þess að trítla í kringum mikilvæga plottpunkta. Trúið mér nefnilega þegar ég segi að því minna sem þið vitið um myndina fyrirfram, því betra.

Hingað til eru voðalega fáar myndir á þessu ári sem hafa setið jafn lengi í mér og þessi, og ég tek það fram að þessi umfjöllun er skrifuð mörgum dögum eftir að ég sá hana. Myndin er svo yndislega brengluð, næstum því hneykslandi, og fer í rosalega djarfar (og nett truflandi) áttir. Almodóvar heldur rennslinu góðu og eyðir engum tíma í það sem skiptir ekki máli. Í upphafi sögunnar veit áhorfandinn sama og ekkert og hægt og rólega fara upplýsingarnar að flæða úr öllum áttum, og aldrei með löngu millibili. Handritið verður þess vegna aldrei óáhugavert eða dautt og góða efninu er lyft á enn hærra plan með glæsilegri kvikmyndatöku, áhrifaríkri tónlist og leik sem er svo óhugnanlega sannfærandi að maður fær létta gæsahúð. Upplýsingabrjálæðið hefur þó pínu neikvæð áhrif á seinustu senurnar, en um leið og við vitum nákvæmlega allt saman finnst manni eins og endirinn hafi verið aðeins of máttlaus miðað við rest. Myndin fjarar meira út í stað þess að gefa manni rothöggið sem maður var farinn að búast við.

Aftur á móti eru leikararnir sama og fullkomnir hérna, þar sem Antonio Banderas og Elena Anaya eiga auðvitað mesta hrósið skilið. Banderas hefur, svo ég viti til, aldrei nokkurn tímann leikið betur á öllum ferlinum. Hann tekur öflugt hlutverk og gerir allt sem hægt er að gera við það og meira til. Maður tekur hreinlega aldrei augun af þessum karakter vegna þess að hann er heillandi og að öllu leyti óútreiknanlegur. Reyndar dettur mér ýmis önnur lýsingarorð í hug líka en ég vil ekki nefna þau og hætta á því að spilla fyrir öllu því góða. Anaya tekur sömuleiðis að sér hryllilega kröfuhart og djarft hlutverk. Það lítur þó út fyrir að þessi kona sé meira en reynd í djörfum hlutverkum, og með myndir að baki eins og Room in Rome og Sex y Lucia er þetta ósköp eðlileg vinna fyrir hana. Leikkonan er ófeimin, óaðfinnanleg en umfram allt óendanlega falleg. Bæði Banderas og Anaya eiga það sameiginlegt að eiga persónur í myndinni sem gjörbreytast í áliti áhorfandans því lengra sem líður á myndina. Ansi mikið.

Sagan er svo mikil tilfinningaleg hringekja að maður veit aldrei hvert myndin ætlar að fara næst, sem gerir hana í senn ótrúlega spennandi þótt lágstemmd sé. Kynlíf spilar einnig stóran þátt þar sem líkamleg þráhyggja er eitt stærsta umfjöllunarefnið í henni. Nekt er líka mikið notuð, þá aðallega til að undirstrika það, og tengist beint við fáeinar kynlífssenur, sem eru allar grimmdarlega óþægilegar á einn hátt eða annan.

Þó svo að það séu helmingslíkur á því að flestir kunni að meta þessa mynd, þá hvet ég samt kvikmyndaunnendur til að kíkja á hana bara upp á forvitni að gera. Hún er nógu kexrugluð til að halda athygli þinni smávegis jafnvel ef þú myndir ekki fíla hana yfir heildina. Persónulega mun ég ábyggilega kalla þetta eina af betri myndum ársins 2011 þegar uppi er staðið, en jafnvel ef það gerist ekki er hún umhugsunarlaust ein sú eftirminnilegasta.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

15.01.2012

Tarantino bíóverðlaunin 2011

Áður en leikstjórinn Quentin Tarantino varð að því sem hann er í dag, þá var hann bara þessi klassíski bíónörd eins og við hin, og jafnvel þótt hann eigi eflaust marga vini í bíóbransanum, þá hræðist hann þess ekkert ...

17.10.2011

Vinsælustu myndir Íslands í dag

Íslenska fjölskyldumyndin Hetjur Valhallar: Þór er vinsælasta myndin í kvikmyndahúsum landsins, en myndin var frumsýnd um helgina. Hún þénaði um 6,4 milljónir íslenskra króna, en 6.553 manns sáu myndina. Í öðru s...

05.09.2011

Viðtal: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

Íslenska gamandramað Á annan veg var frumsýnt síðustu helgi og Kvikmyndir.is tók smá viðtal við leikstjóra myndarinnar, Hafstein Gunnar Sigurðsson. Farið var yfir nokkrar spurningar í tengslum við myndina sjálfa, en einnig kvi...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn