Náðu í appið
Öllum leyfð

Spy Kids: All the Time in the World 2011

(Spy Kids 4)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 26. ágúst 2011

Svona eiga stjúpmæður að vera!

89 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 23% Critics
The Movies database einkunn 37
/100

Á yfirborðinu á Marissa Cortez Wilson allt sem hugurinn girnist. Hún er gift frægum sjónvarpsmanni sem eltist við njósnara, er nýbúin að eignast barn og á tvö frábær stjúpbörn. En í raun hefur fátt reynst henni erfiðara en að reyna að ganga þeim Rebeccu og Cecil í móðurstað og maðurinn hennar, Wilbur myndi ekki finna njósnara þó hann byggi með einum,... Lesa meira

Á yfirborðinu á Marissa Cortez Wilson allt sem hugurinn girnist. Hún er gift frægum sjónvarpsmanni sem eltist við njósnara, er nýbúin að eignast barn og á tvö frábær stjúpbörn. En í raun hefur fátt reynst henni erfiðara en að reyna að ganga þeim Rebeccu og Cecil í móðurstað og maðurinn hennar, Wilbur myndi ekki finna njósnara þó hann byggi með einum, en það er einmitt raunin. Heimur Marissu fer endanlega á hvolf þegar brjálæðingurinn Timekeeper hótar að taka yfir heiminn. Henni er kippt af eftirlaunum og sett beint yfir The Organization of Super Spies, þar sem Spy Kidsdeildin er til húsa. Þar sem heimsendir er í uppsiglingu er Rebeccu og Cecil hent beint út í djúpu laugina, en með hjálp nokkurra velkunnra njósnara líkt og Carmen og Juni Cortez auk nýjustu tækni gætu þau bjargað heiminum og fjölskyldu sinni um leið.... minna

Aðalleikarar

Beint á vídeó með svona lagað!
(Eftirfarandi umfjöllun er uppsett sem opið bréf til leikstjórans – í þágu gríns, að sjálfsögðu)

Kæri Robert Rodriguez (mætti ég kannski bara kalla þig Rob Rod?).

Alveg frá því ég man eftir mér hef ég verið einlægur aðdáandi þinn. Handritshæfileikar hafa aldrei verið miklir (þess vegna eru bestu myndirnar þínar byggðar á efni einhvers annars) en það hefur verið oft – en ekki alltaf – bætt upp með hörkufínu afþreyingargildi og skemmtilegu ofbeldi. Það er hálf sársaukafullt að horfa upp á mann eins og þig breytast í einhæfan og metnaðarlausan barnamyndaleikstjóra sem virðist ætla alltaf að slá tvær flugur í einu höggi með þessum krakkamyndum, með því að gera þær nógu ódýrar til að þær skili auðveldlega inn hagnaði og líka til að vera besti pabbi í heimi með að segjast gera þær fyrir börnin þín (öll fimm). Allir græða nema áhorfendur og sérstaklega foreldrar barnanna sem þurftu að sitja í gegnum seinustu fjórar myndirnar þínar. Ég mun aldrei segja að Spy Kids 3 hafi verið góð mynd, en hún slapp fyrir horn. Eftir henni fylgdu Sharkboy & Lavagirl, hin glataða Shorts og núna Spy Kids "endurræsingin," sem er alveg jafn slæm ef ekki aðeins verri.

Þessar þrjár myndir eru allar óvenju svipaðar hvað vinnubrögð varða; illa leiknar, illa skrifaðar, smábarnalegar og bara almennt pirrandi til áhorfs. Boðskapurinn er jafn þvingaður í þeim öllum, húmorinn fyrir neðan allar hellur (mikið rosalega finnst þér þú vera sniðugur með alla þessa orðaleiki sem kalla sig brandara), framleiðslan áberandi ódýr (alveg sama hversu sláandi umhverfin eru þá sé ég alltaf bara leikara fyrir framan grænt tjald) og enginn virðist reyna neitt á sig nokkurn tímann. Fullorðnu leikurunum er augljóslega skítsama og krakkarnir reyna sitt besta til að vera ekki óþolandi – en með misgóðum árangri auðvitað. Stundum bera myndirnar merki um skemmtilegt hugmyndaflug en þyngd gallana hrynur oftast á það sem á einhverja möguleika. Maður þarf ekki nauðsynlega að tækla bíómynd eins og sjö ára krakki myndi gera bara til að ná til markhópsins. Faglega unnin barna- og fjölskyldumynd ætti að geta náð til þeirra sem eru þriggja ára og sömuleiðis níutíu og þriggja.

Hvert fór maðurinn sem gerði The Faculty, From Dusk till Dawn og Sin City? Ég sá alvöru leikstjóra í þeim manni, og staðreyndin að þú hafir gengt mörgum mismunandi framleiðsluhlutverkum (kamerumaður, klippari o.fl.) gerði þig bara enn aðdáunarverðari. Hvers vegna að selja sig svona út? Er það of mikið vesen að leggja lágmarks metnað í þessar undanförnu barnamyndir fyrst það er svona öruggt að þú græðir á þeim? Eða taka allavega meira en klukkutíma í að skrifa handritin? Greinilega ertu farinn að huga minna að orðsporinu þínu sem leikstjóri heldur en þú gerðir. Ég er forvitinn að vita hvað Quentin Tarantino, góðvini þínum og samstarfsmanni, finnst um þessi léttu verk þín. Hvernig ætli kurteisishláturinn hans hljómi?

Spy Kids: All the Time in the World setur sér það markmið að höfða eins sterkt til smákrakka í húmor sínum og hún getur. Þetta er svosem ekki slæmt, fyrir utan það að börnum finnst oftast allt fyndið og tilraunirnar eru vægast sagt yfirdrifnar. Kannski er ég sjálfur bara orðinn alltof snobbaður fyrir brandara sem tengjast ælu(pokum), kúkableiu(m) og prumpi. Mér finnst stórfurðulegt að leikararnir gátu haldið andliti án þess að líta út fyrir að þjást í gegnum þetta. Krakkarnir tveir eru reyndar ekkert alslæmir og reyndar eru þeir aðeins þolanlegri heldur en Jessica Alba (sem virðist EKKERT hafa gert af viti síðan Sin City). Fínir menn eins og Jeremy Piven og Joel McHale (úr snilldarþáttunum Community) eru annars bara að niðurlægja sig í hlutverkum sem þeir sýna einkennilega mikinn áhuga. Ég býst þó við að Ricky Gervais hafi komið skást út sem talandi vélhundur. Mér líður eins og spuninn hans hafi gefið það sterklega til kynna að hann vissi að þessi mynd væri slæm.

Rennum aðeins yfir þetta samt. Spy Kids-myndirnar eru núna orðnar fjórar og ennþá er bara komin ein Sin City bíómynd. Það er eitthvað ansi mikið að þessu hjá þér, Robert minn. Jú jú, fyrstu tvær Spy Kids-myndirnar voru fínar en satt að segja fannst mér þær ekki standast enduráhorf neitt voða vel. Þær náðu samt alveg til mín og voru stöku sinnum nokkuð snjallar. Ég skil ekki alveg tilganginn í að endurræsa þína eigin seríu með nýjum karakterum (þessir eldri eru að vísu settir í gestahlutverk) þegar voða lítið nýtt er á boðstólnum. Helsta breytingin er þroskastigið, eins og þú hafir ákveðið að endurgera fyrstu myndina fyrir þá sem fannst hún virka of fullorðinsleg.

Ég ætla að ljúka þessari umsögn með því að segja þér að álit mitt á þér hefur minnkað smátt og smátt undanfarin ár. Það er smá högg á hjartað, en ég lifi það af. Það væri fínt ef þú gætir bætt mér þessar 80 mínútur upp með einhverri geggjaðri "bad-ass" mynd á næstunni. Mér veitir ekki af því eftir að hafa horft á mynd sem inniheldur setninguna "Never underestimate the power of puke."

Hættulega mikill sannleikur í þeim orðum, eins og þessi mynd sýnir.

Aðeins fáeinar hönnunarhugmyndir og Ricky Gervais kemur í veg fyrir falleinkunn. Gangi þér vel næst.

Bestu kv.
Tommi

3/10

Og já! Lyktaspjaldið er eitthvað mesta drasl gimmick sem ég hef lengi vitað um. Myndin þjáist líka fyrir allar þessar bjánalegu áherslur á lyktir, sem gerir hana rosalega háða þessu feilaða spjaldi.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn