Náðu í appið
Bönnuð innan 18 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefna

Enter the Void 2009

Justwatch
161 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 73% Critics
The Movies database einkunn 69
/100
Myndin hlaut sérstök verðlaun dómnefndar (Special Jury Award) og verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku á Sitges kvikmyndahátíðinni á Spáni árið 2009 og verðlaun fyrir bestu myndina á Neuchâtel kvikmyndahátíðinni í Sviss árið 2010.

Sagan gerist í Tokyo þar sem Oscar ungur bandarískur dópsali lifir lífinu, og notar oft á eigin söluvarning. Hann fær Lindu systur sína til að flytja til sín, en foreldrar þeirra létust í hryllilegu bílslysi. Eitt kvöldið fer Oscar með vini sínum Alex á barinn The Void til að selja Victori dóp. Victor virðist allur á nálum og kveður Oscar með orðunum:... Lesa meira

Sagan gerist í Tokyo þar sem Oscar ungur bandarískur dópsali lifir lífinu, og notar oft á eigin söluvarning. Hann fær Lindu systur sína til að flytja til sín, en foreldrar þeirra létust í hryllilegu bílslysi. Eitt kvöldið fer Oscar með vini sínum Alex á barinn The Void til að selja Victori dóp. Victor virðist allur á nálum og kveður Oscar með orðunum: Fyrirgefðu mér. Stuttu seinna fyllist staðurinn af lögreglumönnum og eftir að hafa flúið inn á klósett er Oscar skotinn til bana. Handanndauðans flýtur hann yfir Tokyoborg og minnist liðinna atburða úr lífi sínu, slyssins, hvernig honum og systur hans var skipt á mismunandi fósturheimili og loks atburðanna sem leitt hafa til dauða hans. En eitt stendur upp úr, loforð hans til Lindu um að hann muni aldrei yfirgefa hana. Og hvort sem hann er dauður eða ei, mun hann standa við það. ... minna

Aðalleikarar

Talandi um tómarúm
Þegar ég ber saman titilinn við álit mitt á þessari mynd get ég ekki annað en séð fyrir mér risastórt, endalaust blikkandi neon-skilti sem stafar út orðið KALDHÆÐNI. Þegar einhver býr til bíómynd sem heitir í rauninni “Gakktu inn í tómarúmið,” sem er tveir og hálfur tími að lengd og fjallar ekki um neitt merkilegt, þá er erfitt að flissa ekki svolítið inni í sér. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti art-myndum og satt að segja tek ég á móti öllu sem er öðruvísi og anti-mainstream með opnum örmum. En þá þarf auðvitað að vera meira á bakvið verkið en heldur einungis kynlíf ásamt yfirdrifinni ljósa- og litanotkun. Leikstjórinn þarf líka helst að koma betri skilaboðum á framfæri í staðinn fyrir: “Sjáið hvað ég get gert margt sniðugt með kamerunni minni.”

Enter the Void dáleiddi mig reyndar fyrsta hálftímann, og hélt áhuga mínum alveg þangað til að klukkutími eða svo væri liðinn. Ástæðan er líklegast sú að á þessum tíma er eitthvað í þróun allan tímann, en eftir að ákveðin sería af flashback-atriðum er búin, þá spyr maður sig “hvað svo?” Restin af myndinni er hæg (og þá meina ég artý-hæg, ekki hæg á góðan hátt) og sóðalega stefnulaus. Ég beið alltaf eftir því að hún kæmist á sama skrið og þegar hún byrjaði en því lengra sem leið á hana fór hún bara að verða drepleiðinleg, og ónauðsynlega gróf. Það eru ansi margar senur sem sýna fólk gerandi ýmislegt sem ég hefði mun frekar verið til í að gera sjálfur en að horfa á þessa mynd, eða a.m.k. þennan seinni helming.

Óneitanlega er þetta samt einhver alflottasta mynd sem ég hef séð síðustu ár, myndatökulega séð. Ef þetta væri spurning um að gefa kvikmynd einkunn fyrir fersk og ágeng stílbrögð þá væri þessi án efa komin með fullt hús stiga. Franski brjálæðingurinn Gaspar Noé virðist enn og aftur nærast á því að vera kallaður djarfur, en hann gerði seinast “fílgúdd” myndina Irreversible, sem ég er hræddur um að ég muni aldrei gleyma. Markmið þessa manns er greinilega að ögra áhorfendum sínum og hann nýtur þess klárlega í botn að búa til mynd sem skiptir þeim í tvo hópa: Þá sem fíla myndirnar hans alla leið, og þá sem eru bara ekki alveg með. Ég neyðist til að setja mig í seinni hópinn en samt sem áður kýs ég að hallast meira að myndinni en frá henni. Hún er stöðugt útlitslega áhugaverð og frásagnarlega séð er hún mjög krefjandi og sniðug. Noé gerir hina ótrúlegustu hluti með myndavélina sína og stillir upp skotum sínum með harðri nákvæmni oft. Einna töku skotin sem endast í margar mínútur eru einnig vægast sagt aðdáunarverð. Það er afskaplega erfitt fyrir mig að hata mynd sem er svona faglega gerð, en ég skil þá fullkomlega sem gera það samt.

Efnislega skil ég alveg hvað Noé er að gera (passið að fylgjast vel með samræðunum á fyrstu 20 mínútum myndarinnar, annars eruð þið alveg týnd) en mér finnst hann bara ekki gera það alltof vel. Kubrick-áhrifin eru gegnsæ allan tímann og ljóst er að einhver hafi verið aðeins of ástfanginn af ljósasýningunni í Space Odyssey og áköfu nektarnotkuninni í A Clockwork Orange því hér er stanslaus veisla af sambærilegum þáttum, bara 10 sinnum villtara. Ég skil samt ekki alveg hvers vegna þessi leikstjóri finnur fyrir þeirri stjórnlausri þörf að bomba í okkur tripp-atriðum sem endast alltof lengi og gefa manni hausverk, í stað þess að klippa myndina aðeins niður og gera hana einbeittari. Í alltof mörgum tilfellum beinist myndavélin að skæru ljósi í fáránlega langan tíma og það reynir á þolinmæðina þegar enginn tilgangur er með því nema að flakka á milli staða á stílískan hátt. Upphafskreditlistinn undirstrikar það hversu mikil tilraun er gerð til að valda þér óþægindum af engri sérstakri ástæðu. Þessi byrjun fannst mér heldur ekkert passa við myndina enda skuggalega mikið úr takt við hraða hennar. Flogaveikir skulu passa sig!! Og gamalt fólk.

Það er ansi margt hægt að segja um Enter the Void, hvort sem það er gott, slæmt eða mjög slæmt. Hún er svo sannarlega öðruvísi og á marga vegu einstök. En sama hversu vel leikin, sjúk, erfið eða klikkaðslega flott hún er þá gengur henni illa að fylla upp í tímalengd sína. Efnislega er hún ekki það athyglisverð heldur þegar uppi er staðið.

6/10 – Þó svo að hún hafi ekki verið fyrir mig gæti vel verið að þið Hollywood-hatarar munuð éta hana upp til agna. Ég gef henni gjafmild stig fyrir sterka kosti.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

17.11.2011

95 ár af kvikmyndum

Upphafstitlar í kvikmyndum eru eins misjafnir eins og þeir eru margir. Sumir eru aðeins gerðir til að veita áhorfandanum nauðsynlegar upplýsingar um myndina á meðan að aðrir upphafstitlar eru eitthvað miklu meira. Kvikmyndir...

19.04.2011

Getraun: Enter the Void

Á morgun gefur Græna Ljósið vægast sagt spes og trippaða mynd út á DVD, en það er hin margumtalaða Enter the Void, eftir Gaspar Noé. Sagan gerist í Tokyo þar sem Oscar (Nathaniel Brown), ungur bandarískur dópsali lifir lífinu að vild,...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn