Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Invention of Lying 2009

(This Side of the Truth)

In a world where everyone can only tell the truth... ...this guy can lie.

100 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 56% Critics
The Movies database einkunn 58
/100

Þessi mynd er byggð á hugmynd um heim þar sem allir segja alltaf sannleikann, og svo gott sem allt sem þeim dettur í hug. Mark Bellison er handritshöfundur sem er við það að verða rekinn. Hann er lágvaxinn, feitur með flatt nef – ekki beint ákjósanleg gen þar á ferð sem þýðir að hann mun ekki ná langt með Önnu, konunni sem hann elskar. Þegar hann er... Lesa meira

Þessi mynd er byggð á hugmynd um heim þar sem allir segja alltaf sannleikann, og svo gott sem allt sem þeim dettur í hug. Mark Bellison er handritshöfundur sem er við það að verða rekinn. Hann er lágvaxinn, feitur með flatt nef – ekki beint ákjósanleg gen þar á ferð sem þýðir að hann mun ekki ná langt með Önnu, konunni sem hann elskar. Þegar hann er staddur í banka, missir hann útúr sér skrök með ótrúlegum árangri. Síðan þegar móðir hans er við dauðans dyr, og segist vera hrædd við tómið sem fylgir dauðanum, þá býr Mark til sögu til þess að róa hana. Starfsfólk spítalans heyrir söguna um himnaríki og trúir auðvitað öllu. Sagan ferðast hratt milli manna og fljótlega er Mark orðinn að spámanni. Hann verður ríkur þegar fyrsta uppskáldaða handritið hans kemur út og þegar á öllu er á botninn hvolft þá er hann góður náungi. En mun það reynast nóg til að heilla Önnu? ... minna

Aðalleikarar

Skemmtileg en gat verið betri
The Invention of Lying er afar sérstök blanda af ádeilu og rómantískri gamanmynd sem er pökkuð inn í yndislega frumlegan söguþráð sem minnti mig á samsuðu af Stranger Than Fiction og Idiocracy. Í hnotskurn fjallar myndin um mann að nafni Mark (Ricky Gervais), sem lifir í heimi - eða annarri vídd öllu heldur - þar sem hugtakið lygi er bara hreinlega ekki til. Hver einasta manneskja er einlæg og talar opinskátt þar sem hún hugsar ef hún er spurð. Mark upplifir mjög slæman dag og skyndilega uppgötvar hann að hann getur sagt hvað sem honum dettur í hug sem er ekki satt. Og þar sem enginn hefur hugmynd um hvað það er eða þýðir að ljúga, þá trúir hver og einn öllu því sem hann segir. Mjög saklaust í byrjun, en fljótlega fer allt úr böndunum þegar hann þykist geta svarað mikilvægustu spurningum heimsins.

Grunnhugmyndin er í rauninni svo fersk að það særir mig innst inni að geta ekki kallað heildarniðurstöðuna frábæra. Ástæðan er einmitt sú að myndin missir allt niður um sig þegar hún reynir að vera rómantísk gamanmynd, og það er algjörlega ófyrirgefanlegt hvað hún verður amerísk og klisjukennd í lokin þrátt fyrir að innihalda mjög súran söguþráð. Afgangurinn er allt annað, og myndin hoppar á milli þess að vera bæði snjöll og drepfyndin á köflum. Kók og Pepsi auglýsingarnar voru helber snilld.

Ricky Gervais hefur alltaf verið maður að mínu skapi, og ég hef aldrei nokkurn tímann getað kallað hann slæman. Hann hefur haft nóg að gera hérna, enda annar leikstjóri myndarinnar sem og handritshöfundur og aðalleikari, þótt þetta síðastnefnda fái mesta hrósið hjá mér. Hann er líflegur, hress og hittir oftast í mark með réttu bröndurunum en þegar handritið feilar, þá gerir hann það líka. Það sem svínvirkar við alla myndina er hvernig hún tekur skot á samfélagið og kristinna trú með þessum einfalda en kómíska söguþræði. Gervais er sagður vera gallharður trúleysingi og það sést greinilega á myndinni. Það hafa kannski ekki allir húmor fyrir þessu en ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri yfir satírunni, sérstaklega þegar persóna Gervais fer að leika sendiboða Guðs með því að skrifa sín eigin 10 boðorð aftan á tvo pizzukassa.

Auðvitað er boðskapur til staðar, og honum er nuddað ósköp duglega framan í mann. Það böggaði mig samt ekki mikið, heldur fannst mér myndin bara ganga útaf sporinu í senunum með Gervais og Jennifer Garner. Það er góður hlutur að myndin skuli gera tilraun til þess að sýna umhyggju gagnvart persónum sínum, en þegar bíómynd er eins ýkt og þessi er voða erfitt að taka persónurnar eitthvað alvarlega. Rómantíkin gefur myndinni sál en hún dregur myndina mikið niður. Annað hvort hefði mátt skrifa hana betur eða einfaldlega sleppa henni. Miðað við hugmyndina hefði pottþétt verið hægt að vinna meira úr efniviðinum. Seinustu senurnar eru hrikalega klisjukenndar (sem mér finnst ætti að vera bannað í svona mynd!) og til að bæta gráu ofan á svart skilur myndin fullt af spurningum eftir ósvöruðum í lokin.

The Invention of Lying er mjög traust á sumum stöðum en því miður veik á ýmsum öðrum. Hún er stundum mjög fyndin, mjög óvænt (talandi um hlaðborð af "cameo" hlutverkum!) en almennt nokkuð skemmtileg. Hins vegar hefði hún getað orðið svo mun betri hefðu þeir Gervais og Matthew Robinson unnið betur í handritinu fyrirfram. Mig langar að geta mælt hiklaust með myndinni, en frekar ráðlegg ég fólki að tékka á henni ef allir helstu góðu titlarnir eru úti á vídeóleigunni. Hún er s.s. alveg áhorfsins virði, en ekkert vera að drífa ykkur.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn