Náðu í appið
Bönnuð innan 16 ára

Boondock Saints II: All Saints Day 2009

(The Boondock Saints 2)

118 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 22% Critics
The Movies database einkunn 24
/100

MacManus bræðurnir lifa rólegu lífi í Írlandi ásamt föður sínum, en þegar þeir komast að því að presturinn þeirra hefur verið drepinn af mafíunni, þá fara þeir til Boston til að hefna fyrir morðið á klerkinum.

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

"Fín"
Ég er mikill áðdáðandi fyrstu
Hún er kanski ekki jafn góð og fyrsta en samt þess virði að horfa á sko.
það er mikið rifjað upp úr fyrri myndinni sem mér fanst fínt.
Maður fær líka að kynnast gamla karlinum sem eg man aldrei hvað heitir.Miklu meiri hasar en í fyrstu sem er plús.Willem Dafoe er mikið, saknað nýja kerlinginn er aðeins of pirrandi hreim.Söguþráðurinn eins og Troy skrifaði þetta á viku.Þegar endirinn kemur verður þetta ógeðslega spennandi og þá býst maður bara við þriðju.
Samt sem áður góð mynd.

8/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eins og hlandbuna framan í smettið á mér
Ég tel mig vera sæmilegan aðdáanda fyrri myndarinnar þrátt fyrir að tilhugsunin að kalla hana einhverja snilld sé alveg út í hött. Engu að síður var margt skemmtilegt við þá mynd og síðan ég uppgötvaði hana fyrst ef ég oft notið hennar í DVD tækinu mínu. Troy Duffy sýndi að í honum bjó hæfileikaríkur kvikmyndargerðarmaður sem léttilega hefði getað átt ágæta framtíð fyrir sér, en í staðinn varð hann bara "one hit wonder." Ég held að hann hafi bara verið latur eftir að eina myndin hans komst í költ-status. Og frekar en að prófa nýja hluti, þá virtist eina markmiðið hans vera að búa til aðra Boondock Saints-mynd, sem tók óvenjulega langan tíma að líta dagsins ljós. Þessi mynd var samt ekki gerð af stúdíógræðgi til að moka inn seðlum, heldur sagðist Duffy ætla að gera þessa mynd fyrir aðdáendur.

Annaðhvort hefur hann þá misst alla þá hæfileika sem hann hafði, eða hann hatar aðdáendur sína meira en allt!

Boondock Saints II gerði mig ekki bara svekktan, heldur pirraðan! Allt það sem virkaði í hinni myndinni hrynur gjörsamlega í sundur hérna og í mínum huga er auðséð að Duffy er langt kominn úr æfingu sem leikstjóri og handritshöfundur. Myndin er ekkert töff, ekkert skemmtileg, bara léleg. Ég bjóst við afþreyingarmynd, en afþreyingargildinu var greinilega skipt út fyrir slæma brandara, handónýtan söguþráð, stirð samtöl, þreyttan hasar og einhverja ljótustu klippingu sem ég hef séð í bíómynd upp á síðkastið. Ég kemst bara ekki yfir það hvað hún er ömurlega klippt og það bitnar á nánast öllu; Flæðið er svo dautt að myndin nær engu flugi og hvernig sumar upplýsingar komast til skila er svo illa unnið að það mætti halda að 12 ára krakki hafi verið við klippitölvuna. Öll innskot sem skipta annaðhvort yfir í "flashback" senur eða brot úr fyrstu myndinni eru eins og eitthvað úr metnaðarlausri C-mynd. Ég kenni samt leikstjóranum um það að þekkja ekki muninn á góðri og lélegri senuuppbyggingu.

Duffy hefði ómögulega getað misheppnast meira í leikstjórastólnum og í kjölfarið mígur hann alveg grimmdarlega á væntingar aðdáenda sinna. Meira að segja tónlistarsmekkur mannsins hefur versnað með árunum. Flest öll lögin sem hann valdi hér eru ekkert annað en óhljóð sem hækkuð eru í botn við hvert tækifæri. Annaðhvort það eða þau bara passa ekkert við senurnar.

Mér leið oft eins og fyrsta myndin væri að reyna að byggja upp eitthvað rosalega áhugavert (þess vegna vildu allir aðra mynd!). Endirinn bauð a.m.k. upp á alls konar möguleika fyrir framhaldið, og þá meina ég alveg HELLING. Í staðinn fengum við sögu sem er ekki bara merkilega óspennandi, heldur kjánalega lík forvera sínum, a.m.k. í helstu viðburðum. Og eins og það sé ekki nógu slæmt, þá reynir Duffy margoft að vera sniðugur og kemur með eins margar bjánalegar tilvísanir í fyrstu myndina og hann mögulega getur. Ég hef sjaldan séð eins hallærislega tilraun til þess að reyna að þóknast aðdáendum. Ef eitthvað þá er þetta móðgun. Ég kom heldur ekki til að sjá illa unnið afrit af The Boondock Saints, heldur vildi ég sjá glænýja mynd með sömu persónum og kannski einhvern örlítinn vott af ferskleika og hugmyndaflugi.

Myndin gerir heldur enga tilraun til þess að betrumbæta persónusköpunina hjá bræðrunum tveimur, sem er skrítið vegna þess að báðar myndirnar eiga að vera um þá en ekki heimskar löggur og ýkta glæpona. Við vitum jafn lítið um þá hérna og við gerðum í hinni myndinni, og satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvor þeirra er Connor og hvor er Murphy. Þeir Sean Patrick Flanery og Norman Reedus sýna hlutverkunum augljóslega mikinn áhuga. Hví ekki gefa þeim aðeins meira að gera? og kannski meiri ástæðu til að halda upp á þá. Það vantar samt allan töffaraskapinn í drengina í þessari umferð, og það er hálf óhugnanlegt hvað Flanery hefur mikið skemmt á sér andlitið með bótox aðgerð. Ég ætlaði varla að þekkja manninn. Hann lítur út eins og Mickey Rourke. Reedus, aftur á móti, er næstum því óbreyttur.

Clifton Collins Jr. bætist einnig við hópinn og tekur við af David Della Rocco (ekki mikill söknuður þar) sem þriðja hjólið. Hann er ágætur en alltof ágengur í sumum atriðum, eins og hann sé sífellt að reyna að vera fyndinn. Svo er það Julie Benz, sem tekur við af Willem Dafoe (brjálaður söknuður þar!) í hlutverki rannsóknarlöggunnar sem gefur skít í reglubókina. Trúið mér, því minna sem er sagt um Benz, því betra. Hún er óþolandi í nánast hverri einustu senu og því miður á hún þær ófáar. Suðurríkjahreimur hefur sjaldan farið eins mikið í taugarnar á mér.

Það eina sem var faglega unnið við þessa mynd var kvikmyndatakan, en jafnvel hún fór að verða pirrandi á sumum stöðum, t.d. í hasarsenunum þegar hún gerir ekkert annað en að rykkjast fram og tilbaka þegar bræðurnir eru að skjóta. Duffy var einu sinni svo ákveðinn og efnilegur. Núna hef ég enga trú á honum. Venjulega þroskast maður og lærir ýmislegt nýtt á heilum áratugi en hann er orðinn meira amatör núna en þegar hann byrjaði.

Það er hroðalega lítið jákvætt við þessa mynd, því miður. Það eina sem mér fannst almennilega skemmtilegt var undarlega steikt og handahófskennt atriði sem vísar í '70s exploitation-stíl. Þið fattið hvað ég á við um leið og þið sjáið það. Annað var það ekki. Og það versnar síðan alveg í seinustu senunni þegar sagan byrjar að vera eitthvað áhugaverð og þá skyndilega er myndin búin. Virkilega ósanngjarnt. Kannski ef þið stillið væntingar eins lágt og þið getið er hægt að finna eitthvað ágætt í þessu öllu. En stóra spurningin fyrir flesta er hvort að myndin var biðarinnar virði. Mitt svar gæti ekki verið skýrara.

2/10

Og já, eitt enn. Átti maður virkilega að kaupa það að Judd Nelson (fæddur 1959) væri sonur mafíósans sem Carlo Rota (f. '61) lék í fyrstu myndinni? Fyrir hvaða heiladauðu hópa var þessi mynd gerð??

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn