Náðu í appið
Öllum leyfð

Guð blessi Ísland 2009

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 6. október 2009

70 MÍNÍslenska

Kvikmyndagerðarmaðurinn Helgi Felixson var fyrir tilviljun staddur á Íslandi 6. október 2008 þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra hélt sína frægu ræðu rétt fyrir setningu neyðarlaganna. Það var erfitt að skilja nákvæmleg hvað var að gerast og ómögulegt að ímynda sér atburðina sem fylgdu í kjölfarið. En Helgi Felixson brást við með því að gera... Lesa meira

Kvikmyndagerðarmaðurinn Helgi Felixson var fyrir tilviljun staddur á Íslandi 6. október 2008 þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra hélt sína frægu ræðu rétt fyrir setningu neyðarlaganna. Það var erfitt að skilja nákvæmleg hvað var að gerast og ómögulegt að ímynda sér atburðina sem fylgdu í kjölfarið. En Helgi Felixson brást við með því að gera það sem hann gerir best; hann tók upp kvikmyndavélina og byrjaði að taka upp það sem fyrir augu bar. Hverjar eru afleiðingar hrunsins fyrir venjulegt fólk í þessu landi? Við kynnumst lögreglumanni, vörubílstjóra og norn og við sjáum nýjar hliðar á Björgólfi Thor, Bjarna Ármanssyni, Jóni Ásgeiri og Geir H. Haarde. ... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Segir manni ekkert nýtt
Ég ætla að koma mér beint að efninu og segja að mér fannst Guð Blessi Ísland ekki vera góð heimildarmynd. Það er ýmislegt áhugavert í henni, og að vissu leyti er hún mikilvæg, en leikstjórinn Helgi Felixson hefði samt getað gert hana mun áhrifameiri. Í mínum huga eru bestu heimildarmyndirnar
þær sem skoða umfjöllunarefnið frá öllum sjónarhornum og móta athyglisverða samantekt sem hefur eitthvað að segja manni. Góð heimildarmynd á líka að skapa áhrif án þess að pína átökin ofan í áhorfandann og hún þarf líka að vera með allt á hreinu frá upphafi. Sem langur fréttaþáttur um hrunið og áhrif þess á líf Íslendinga virkar myndin ágætlega, en sem heimildarmynd finnst manni maður vera hálf svikinn í lok myndar.

Mér finnst glatað þegar heimildarmyndir fjalla um viðkvæmt efni og segja manni síðan ekkert sem maður vissi ekki þá þegar. Ég hefði gefið leikstjóranum gott klapp á bakið hefði hann náð að kanna ýmsar hliðar á málinu, en því náði hann ekki því miður. Helgi leggur mesta áherslu á að fjalla um líf mismunandi einstaklinga sem hafa orðið fyrir slæmum áhrifum hrunsins Ég er alls ekki að setja út á það því þar er um mjög áhugaverðar sögur að ræða, og margar að sjálfsögðu sorglegar. Fólkið sem er hér sýnt hefur alla mína samúð, en Helgi þarf að gera sér grein fyrir því að sumt efnið virkar ótrúlega sviðsett, og um leið og áhorfandinn finnur fyrir því, þá dettur hann samstundis úr myndinni.

Annars fannst mér mjög fyndið að sjá heilan bíósal skellihlæja yfir ýmsu sem Jón Ásgeir og Björgólfur Thor sögðu. Mér fannst viðtölin við þá samt ekkert það áhugaverð. Mennirnir sögðu ýmislegt sem hélt athygli manns, en það var ekkert sem stóð upp úr. Svo fannst mér myndin fara gjörsamlega yfir strikið í tónlistinni sem var ofurdramatísk á köflum. Ég hef sjaldan séð jafn hlægilega tilraun til þess að kreista tár úr áhorfandanum. Persónulega fannst mér ekkert kröftugt við myndina. Flestöll skotin með mótmælunum hafði ég séð áður í fréttunum eða á netinu. Helgi teygir lopann líka rosalega og finnst manni eins og myndin sé lengri en hún þyrfti að vera. Síðasta skotið, þar sem myndavélin horfir út um bílrúðuna hjá Sturlu Jónssyni vörubílstjóra í skuggalega langan tíma undirstrikar þá fullyrðingu.

Í höndum einhvers annars hefði þessi mynd kannski getað orðið eitt það mikilvægasta í íslenskri kvikmyndasögu. Mér finnst líka afskaplega slappt að Helgi ætlast til þess að áhorfandinn viti nákvæmlega allt um efnið fyrirfram í stað þess að koma með stuttar útskýringar inn á milli, bara svona til öryggis. Sérstaklega þar sem hann þurfti hvort eð er að lengja myndina. Betra að gera það með upplýsingum frekar en skotum sem segja manni ekkert. Myndin myndi a.m.k. eldast betur ef hún hefði gert það. Eftir 20-30 ár verður það ekki eins sjálfsagt að hver og einn viti nákvæmlega hvað gerðist eða hvað viðkomandi efni snérist um.

Mér finnst ósanngjarnt að setja einhverja stjörnugjöf á þessa mynd. Það sem skiptir öllu er hvaða áhrif hún hefur á þig, sem er vissulega mjög einstaklingsbundið. Fyrir mitt leyti finnst mér að meira hefði verið hægt að gera við allt þetta hráefni. Það er í rauninni afrek að mínu mati að gera mynd um afleiðingar hrunsins án þess að eitthvað nái til manns, en tónlistarnotkunin, flæðið og bara þessi áberandi skortur á samantekt nær að afreka það.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn