Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

The Time Traveler's Wife 2009

(The Time Traveller's Wife (Bretland))

Frumsýnd: 20. ágúst 2009

107 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 38% Critics
The Movies database einkunn 47
/100

Henry DeTamble (Eric Bana) er með genaröskun sem veldur því að hann á það til að ferðast fyrirvaralust um tímann. Eiginkona hans þarf að sætta sig við þetta ástand eiginmannsins. Ferðir Henrys um tímann virðast tengjast undirmeðvitund hans og brátt fer hann að geta stjórnað því hvert hann fer í hvert sinn. En þegar hann fer að hitta konu sína, Claire,... Lesa meira

Henry DeTamble (Eric Bana) er með genaröskun sem veldur því að hann á það til að ferðast fyrirvaralust um tímann. Eiginkona hans þarf að sætta sig við þetta ástand eiginmannsins. Ferðir Henrys um tímann virðast tengjast undirmeðvitund hans og brátt fer hann að geta stjórnað því hvert hann fer í hvert sinn. En þegar hann fer að hitta konu sína, Claire, á mismunandi tímum fer samband þeirra að verða flókið.... minna

Aðalleikarar

Hefði getað verið betri
Time traveler´s wife er ágætis mynd byggð á frábæri bók.
Hún fjallar um samband Henry og Clare sem eru búin að þekkjast síðan hún var sex ára og hann þrítugur. Henry er tímaflakkari og hverfur á undarlegum tímum og fer aftur í tímann. Hann byrjar að flytjast til Clare þegar hún er lítill krakki og hittast þau þangað til hún flytur að heiman þá er undir henni komið að finna hann í nútíðinni. Þar fara þau að vera saman. Sambandið þeirra er flókið og erfitt og lýsir myndinn erfiðleikum þess að vera í sambandi með einhverjum sem getur ekki alltaf verið til staðar. Þau takast á við ýmis vandamál, Clare vinnur sem listamaður en Henry vinnur ekki vegna tímaflakkinu. Samband þeirra er því ekki venjulegt og áhugavert að fylgjast með því í gegnum myndina.

Bókin sem myndin er byggð á er mun betri, vegna þess hve ítarlega er farið í samband Henry og Clare. Myndin sleppir öllu sambandi þeirra þegar hún var að alast upp og því skilur sá sem sér myndina ekki afhverju Clare er svona staðráðin í að hitta Henry í framtíðinni. Myndin var vel gerð en hefði mátt vera ítarlegri og lengri. Eric Bana og Rachel McAdams standa sig ofboðslega vel í hlutverkum sínum og hefðu þau ef til vill getað tekist á við ítarlegra samband. Myndin var þó ágæt og var þægilegt að horfa á hana. Ég mæli með henni sem rómantískri mynd fyrir stelpukvöld eða þá fyrir rómantískt stefnumót.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Góð saga, vönduð mynd - en aðeins of hröð
The Time Traveler's Wife er óvenjulega nálægt því að fá hjá mér prýðis meðmæli, en hún nær því ekki alveg. Í stað þess að vera góð er hún einungis fín, sem er svekkjandi þar sem að þetta er hugguleg og vel leikin mynd sem er einnig með öllum líkindum frumlegasta ástarsaga sem ég hef séð kvikmyndaða síðustu misseri. Ég fílaði mjög margt við hana, en þó fannst mér ýmislegt vanta. Og ég er viss um að mér þætti enn meira vanta ef ég hefði verið búinn að lesa bókina, sem ég hef ekki heyrt neitt nema góða hluti um.

Þó svo að ég hafi ekki lesið bókina eftir Audrey Niffenegger þá fann ég fyrir því hvernig myndin fer alltof hratt yfir frásögnina. Yfirleitt fær maður þessa tilfinningu þegar maður hefur lesið bækurnar fyrirfram, en hér skín það vel í gegn að það sé miklu meira á bakvið söguna en myndin sýnir. Hún er nefnilega alltof stutt í raun, og sjálfur hefði ég viljað sjá meiri persónusköpun og e.t.v. fleiri sub-plott því ég er alveg sannfærður um að myndin hefði þolað meiri lengd. Ég væri heldur ekki að segja þetta ef mér þætti sagan ekki áhugaverð, því mér fannst hún einmitt MJÖG áhugaverð. Mér líkaði vel við persónurnar, þótti framvindan spennandi og dramað sumstaðar alveg virka, en mér fannst samt alltaf eins og ég væri að horfa á einfaldaðri útgáfu af breiðari sögu.

Eric Bana hefur mér alltaf fundist vera skemmtilegur leikari, og hérna gjörsamlega neglir hann hlutverkið sitt. Hann er bæði fyndinn og déskoti viðkunnanlegur og á hann aldrei erfitt með að öðlast samúð áhorfandans. Rachel McAdams er líka mjög góð (og enn jafn falleg og hún var í The Notebook) og passa þau bæði fullkomlega saman á skjánum. Í raun hef ég ekki út á neinn að setja hvað frammistöðu varðar *nema* stelpurnar sem léku dóttur þeirra. Það var eitthvað við þetta stanslausa glott sem var límt við andlitið á þeim sem fór alveg með mig. Það hefði bjargað nokkrum mikilvægum senum hefðu aðstandendur valið einhverjar aðrar stelpur í hlutverkin (eða hlutverk-ið, æ skítt með það... þið skiljið þegar þið sjáið myndina).

Það sem lætur The Time Traveler's Wife virka er rómantíkin (sorrý strákar), en hún er glæsilega meðhöndluð og dásamlega óhefðbundin, sem er þó meira hrós sem bókin ætti að fá. Engu að síður fannst mér ástarsagan ganga upp vegna þess að hún er svo einlæg og trúverðug, þrátt fyrir sögu sem er við það að teljast vísindaskáldskapur. Klisjur eru þó einhverjar, en sem betur fer fáar, og annað en mest megnið af "konumyndum" þá er erfitt að sjá fyrir sér hvert þessi stefnir. Myndin græðir líka slatta á leikurunum, þá sérstaklega Bana, sem er í hér um bil hverri einustu senu.

Ég veit að titillinn er leiðingjarn og trailerinn afskaplega væminn, en The Time Traveler's Wife leynir alveg á sér, og mér finnst það nánast vont á hjartað að hún skuli ekki leyfa þessari sögu að spilast út á betri hraða. Ég verð að kenna leikstjóranum um það, honum Robert Schwentke (sem síðast gerði hina afspyrnuslöppu Flightplan). Sá maður er kannski góður á ýmsum sviðum en hann þarf að vanda sig betur með strúktúr. Ég vildi allavega að það væri til lengri útgáfa af myndinni sem gerir þessari skemmtilegu sögu (ásamt persónum hennar, bæði lykil- og auka) betri skil. Sénsinn...

Eins og ég gaf í skyn þarna efst, þá er ég svoooo nálægt því að gefa myndinni sjöu í einkunn. Mig langar til þess, en eiginlega treysti mér ekki í það. Í staðinn verð ég að gefa myndinni semi-meðmæli. Hvað stefnumótabíó varðar myndi ég samt miklu frekar benda á hana heldur en þessar undanförnu froður sem hafa verið gefnar út af færibandi.

6/10 - Kannski ég ætti að hundskast til að lesa þessa bók.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn