Náðu í appið
Öllum leyfð

Bride Wars 2009

Frumsýnd: 6. febrúar 2009

Þær voru bestu vinkonur – allt þar til þær völdu sama brúðkaupsdag

89 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 10% Critics
The Movies database einkunn 24
/100

Bride Wars segir frá Emmu (anne Hathaway) og Liv (Kate Hudson), sem hafa verið bestu vinkonur síðan þær voru litlar. Báðar hafa þær þráð hið fullkomna brúðkaup, og hjá þeim báðum inniheldur það að halda það á hinu glæsilega Plaza Hóteli. Nú þegar þær eru vaxnar úr grasi hafa þær báðar hitt menn drauma sinna og virðist allt ætla að ganga fullkomlega... Lesa meira

Bride Wars segir frá Emmu (anne Hathaway) og Liv (Kate Hudson), sem hafa verið bestu vinkonur síðan þær voru litlar. Báðar hafa þær þráð hið fullkomna brúðkaup, og hjá þeim báðum inniheldur það að halda það á hinu glæsilega Plaza Hóteli. Nú þegar þær eru vaxnar úr grasi hafa þær báðar hitt menn drauma sinna og virðist allt ætla að ganga fullkomlega upp hjá þeim. Þær munu brátt gifta sig og er undirbúningurinn fyrir brúðkaupið á fullu. Kjólarnir eru glæsilegir, og brúðarmærnar og þær sjálfar eru eins hamingjusamar og hugsast getur…alveg þangað til þær uppgötva að þær hafa báðar bókað brúðkaupið á sama degi. Skyndilega eru vinkonurnar komnar í harðvítugt og illkvittið stríð sín á milli um hvor fái að halda dagsetningunni og staðnum sínum, því hvorug vill gefa hið fullkomna brúðkaup upp á bátinn.... minna

Aðalleikarar

Dautt stríð
Tvær æskuvinkonur trúlofast á svipuðum tíma og ákveða að skipuleggja brúðkaupin sín í sama mánuði, en vegna villu í bókuninni lenda þær á sama degi. Hvorug neitar að bakka út, svo upphefst þá stríð milli þeirra þar sem þær svífast einskis til að eyðileggja fyrir hinni, sama hverjar afleiðingarnar eru.

Hér höfðu aðstandendur fullkomið tækifæri til að búa til svarta kómedíu með flugbeittum og jafnvel kvikindislegum húmor. Efniviðurinn er svo sannarlega nógu sturlaður, og það þarf ekki einu sinni að minnast á hegðun stelpnanna í myndinni. Ég meina, er virkilega ætlast til þess að maður haldi eitthvað með þessum snargeðveiku gellum?
Mér hefði tvímælalaust þótt fyndnara að sjá brjálaðri mynd eftir þessa sömu hugmynd, og þá með þær vonir um að önnur gellan hefði verið líkleg til að ganga frá hinni rétt fyrir lokin.

Nei nei, Bride Wars er ekki bara bitlaus miðað við umfjöllunarefnið, heldur dúnmjúk og fjölskylduvæn (enda PG-mynd). Myndin er einnig furðu laus við flest allar tegundir af húmor. Það er samt ekki helsta vandamálið, heldur líkaði mig bara merkilega illa við stelpurnar tvær og hafði engan áhuga að sjá hvað myndi rætast úr lífi þeirra rétt fyrir lokatextann. Þær voru báðar leiðinlegar týpur, og hugsanlega eitthvað skemmdar. Þær komu allavega þannig út.

Sko, í svörtum gamanmyndum hefðu framkomurnar og hegðanirnar í myndinni talist eðlilegar, enda eru slíkar ræmur gjarnan ófyrirsjáanlegri heldur en "basic" gamanmyndir. Í fjölskylduvænni mynd sem þessari kallast þetta bara hreinlega klikkun og mannvonska.

Að sjálfsögðu fellur myndin fyrr eða síðar út í klisju og formúlu þegar lengra líður á hana, og eins og mátti giska er sprautaður boðskapur í hana sem er varla í samhengi við afganginn á myndinni.

Stelpurnar tvær eru báðar heitar og virðast skemmta sér vel í hlutverkum sínum, en mér er ferlega sama um það því gleðin smitast ekki yfir á áhorfandann, allavega í mínu tilfelli. Anne Hathaway á oft misgóð hlutverk, en almennt hefur hún staðið sig nokkuð vel að undanförnu.
Kate Hudson er annað mál... Í raun hef ég ekki minnstu hugmynd hvað kom fyrir feril hennar. Stelpan stóð sig frábærlega í Almost Famous fyrir nánast áratugi síðan og hlaut hún jafnvel Óskarstilefningu þá. Eftir það hætti hún að kunna að velja almennileg handrit, og ég held að skásta myndin hennar hafi síðast verið How to Lose a Guy in 10 Days, sem var "fín" í besta falli. Raising Helen, You, Me & Dupree, Fool's Gold, My Best Friend's Girl og núna þessi gefur til kynna hversu mikið hún fer sígandi sífellt.

Ég hafði reyndar gaman af Candice Bergen, en hún blés e.t.v. meira lífi í sína persónu þær 15 mínútur sem hún sást á skjánum heldur en aðalleikkonurnar gerðu með hlutverk sín út alla myndina.

Bride Wars er virkilega, virkilega slöpp gamanmynd sem feilar á allt of mörgum sviðum. Kannski einhverjar stelpur hafi gaman að henni, en ég skil ekki hvernig nokkur manneskja gæti fílað það að fylgjast með þessum snargeggjuðu stelpum sem eiga ekkert gott skilið. Alveg ferlega óviðkunnanleg mynd sem hefði getað orðið skemmtilega siðlaus, en þá farið alla leið, í stað þess að vera kvikindisleg og síðan ákveðið að vera töm.

3/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn