Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

He's Just Not That Into You 2009

Frumsýnd: 20. febrúar 2009

Are you the exception...or the rule?

129 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 42% Critics
The Movies database einkunn 47
/100

Myndin segir frá skakkaföllum nokkurra aðila af báðum kynjum sem tengjast öll einhvern veginn. Í miðju sögunnar er Gigi, ung kona sem les sífellt vitlaust í öll merki sem karlmenn gefa henni um áhuga sinn á henni. Einnig kynnumst við hjónunum Janine og Ben, sem eru að ganga í gegnum erfitt skeið, og blandast hin fagra Anna inn í líf þeirra, sem sjálf er að... Lesa meira

Myndin segir frá skakkaföllum nokkurra aðila af báðum kynjum sem tengjast öll einhvern veginn. Í miðju sögunnar er Gigi, ung kona sem les sífellt vitlaust í öll merki sem karlmenn gefa henni um áhuga sinn á henni. Einnig kynnumst við hjónunum Janine og Ben, sem eru að ganga í gegnum erfitt skeið, og blandast hin fagra Anna inn í líf þeirra, sem sjálf er að reyna að losna úr sambandi. Svo eiga Neil og Beth í eigin erfiðleikum, því þegar Beth vill giftast og Neil neitar lendir samband þeirra í hættu. ... minna

Aðalleikarar

Hugguleg
Yfirleitt getur verið erfitt að láta þessar svokölluðu "ensemble" myndir ganga upp, þar sem fullt, fullt af leikurum berjast um skjátímann og sagan reynir á eðlilegum hraða að flakka á milli persóna og móta um leið heilsteypta útkomu þar sem persónusköpun er í fyrirrúmi. Robert Altman heitinn náði oft að láta slíkar myndir ganga upp, en ekki alltaf. Paul Thomas Anderson hefur tekist það frábærlega. Ég held að fáar stelpur yrðu ósammála mér þegar ég segi að Love Actually náði skrambi vel að sameina marga söguþræði í eina feita rómantíska (jóla)gamanmynd. He's Just Not That Into You á fullt sameiginlegt við einmitt þá mynd, nema sú mynd fjallaði um ástina sem almennt hugtak, og þessi í raun gengur alfarið út á sambönd, þannig að fjölbreytileikinn er t.a.m. ekki sá sami. Ég verð samt að segja, að þó svo að þessi mynd líti út eins og algjört eitur fyrir karlmenn, þá reyndist hún vera bara þrusufín.

Markmið þessarar myndar er að vera einhvers konar alfræðiorðabók fyrir sambönd. Hún telur sig hafa helstu "reglurnar" á hreinu, en samt finnst manni aldrei eins og hún sé að segja manni neitt nýtt eða jafnvel áhugavert. Kevin Smith, Richard Linklater og m.a.s. gömlu góðu Coupling-þættirnir hafa komið með betri speki um sambönd í stökum mónólógum heldur en þessi mynd gerir á tveimur tímum. Það skiptir samt ekki öllu, því myndin virkar alveg sem rómantísk gamanmynd margfölduð með fjórum. Hún er alveg nógu fyndin, sjarmerandi og notaleg til að gera áhorfið ekki leiðinlegt í eina mínútu. Persónusköpunin er samt frekar aum, og eins og oft tíðkast þá held ég að frægu andlitin voru öll fengin svo að fólk myndi þekkja persónurnar í sundur. Það kom fyrir að ég mundi aldrei nöfnin á sumum karakterunum, þannig að í stað þess að hugsa: "Þarna er... þessi gaur!" Þá hugsaði maður frekar: "Hey, þarna er Ben Affleck!"

Leikararnir eru allir mjög fínir og eru aðeins eins áhugaverðir og sögurnar þeirra. Mér fannst reyndar sagan með Jennifer Aniston og Affleck vera hiklaust mest óspennandi, og hver veit nema myndin hefði grætt auka plúsa hefði sá þráður bara verið klipptur alfarið út. En þó svo að ég hafi ýmislegt neikvætt að segja um myndina, þá viðurkenni ég að ég hafi orðið tímabundið ástfanginn af Ginnifer Goodwin. Hún var alveg æðisleg og þrátt fyrir að vera vandræðaleg persóna, þá líkaði manni svo vel við hana allan tímann. Hún hefði jafnvel getað haldið uppi heilli mynd því hún gjörsamlega stelur öllum sínum atriðum. Það yljaði mitt hjarta að sjá hvernig sögu hennar lauk og femíníska hlið mín er ekkert hrædd við að játa það.

Ég held að ég hafi dæmt sýnishorn myndarinnar aðeins of harkalega, enda sagði ég pass á hana þegar hún var í bíó. Hún er formúlukennd rómantísk gamanmynd og það er hér um bil EKKERT til staðar sem við höfum ekki séð áður. Hins vegar verð ég að gefa þessari mynd lúmsk meðmæli þar sem mér var í raun ekkert svo sama um sumar persónurnar og ýmsir söguþræðirnir voru ekki eins fyrirsjáanlegir og ég hélt. Myndin er líka einlæg og býr yfir meiri sál heldur en myndir eins og The Proposal eða New in Town. Semsagt, tilvalin til að horfa á í mjúkum sófa með makanum og poka af nammi.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Leiðinleg-smá spoiler
He´s just not that into you er byggð á samnefndri bók sem á víst að vera einhver sambandsbiblía. Oft þegar eru margir frægir leikarar í sömu mynd þá einhvern veginn verður hún léleg. Ég horfði þó samt á hana eftir að hafa heyrt eitt og annað um hana.

Myndin fjallar um mismunandi fólk og aðstæður þeirra í ástarmálum. Hún fjallar um fólk sem er í sambandi en vill ekki giftast, annað sem vill hálf-partin skilja og svo um fólkið sem er að leita að hinum eina rétta.

Sú sem er að leita að hinum eina rétta fyrir sig Ginnifer Goodwin er bara meðal sorglegustu karakterum sem ég veit um. Hún bókstaflega stendur yfir símanum og bíður eftir hringingu frá síðasta stefnumóti. Hún er niðurlægjandi fyrir konur! Svo er hún að reyna að hætta þessu rugli með hjálp ungs bareiganda Justin Longs og þegar maður heldur að henni miði eitthvað áfram heldur hún að hann sé hrifinn af henni og fer að hanga yfir símanum aftur. Fólkið sem vill ekki gifta sig sé ég ekkert hvað er athugavert, lengstu sambönd margra sem ég þekki hafa ekki falið í sér giftingu og skil ég ekki hvaða svakalegu merkingu þessi pappírssnifsill hefur. Fólkið sem er hálfpartinn að skilja er fólk sem er bara orðið leitt á lífinu og þarf á tilbreytingu að halda, ekkert spennandi eða frumlegt þar.

Ég hafði rétt fyrir mér, það var allt of mikið af frægum leikurum í þessari mynd til að hún gæti orðið góð. Hún var bara leiðinleg ekkert annað, það voru nokkrar áhugaverðar skoðanir sem komu á yfirborðið en á heildina litið var þessi mynd leiðinleg.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn