Náðu í appið
Öllum leyfð

High School Musical 3: Senior Year 2008

Justwatch

Frumsýnd: 31. október 2008

Lokaárið í menntaskólanum rennur upp.

112 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 64% Critics
The Movies database einkunn 57
/100

High School Musical myndaröðin heldur áfram, en hér eru Troy og Gabriella komin á lokaárið í framhaldsskóla og horfa fram á aðskilnað þar sem þau ætla í sitthvorn háskólann. Ásamt úrvalsliði söngvara ákveða þau að búa til söngleik sem endurspeglar reynslu þeirra í skólanum og framtíðarvonir.

Aðalleikarar

Vel þolanleg "fluff" mynd
Ég veit hvað þið eruð að hugsa... "Af hverju í fjandanum fór hann á þetta rugl?!"
Lof mér að útskýra aðeins...

High School Musical-æðið hefur síðustu misseri verið eins og svarti dauði í augum þeirra sem eru yfir 12 ára. Þetta er það sem flest allir elska að hata án þess að hafa séð meira en sýnishorn úr öllu saman. Ég veit ekki hvort ég ætti að skammast mín fyrir að segja þetta, en það vill svo til að ég hef horft á fyrstu tvær HSM myndirnar (það er svona að eiga lítil systkini) og á meðan að ég get klárlega fullyrt það að mikilfenglegur kjánahrollur hafi poppað upp við og við þá voru myndirnar ekki nærri því eins vondar og ég bjóst við. Mér fannst þær eiginlega ekkert spes en þær máttu eiga það að vera með réttu áherslurnar á persónur sem að aðstandendum er augljóslega annt um og mjög jákvæðan boðskap, sem reyndar var bæði fyrirsjáanlegur og... tjah... "Disney-legur." En hey, þetta er nú einu sinni barnaefni þannig að ég ætla ekki að láta eins og ég hafi átt von á einhverri John Hughes-klassík.

Það helsta sem í raun og veru böggaði mig þessar myndir voru lögin, en þau voru alveg einkennilega ógrípandi og skiptingin úr samtölum yfir í söng var á tíðum aðhlátursefni. Þið getið nokkurn veginn ímyndað ykkur að ég hafi ekki farið mjög bjartsýnn á þessa þriðju mynd, þó svo að mig grunaði að það væri meira lagt í hana þar sem að hún fékk bíóútgáfu, annað en hinar. Í besta falli bjóst ég við mynd sem að væri svo léleg að það væri hægt að hafa gaman að henni. Viti menn, ég skemmti mér á þessari rugl mynd, en - aftur - niðurstaðan var alls ekki svo léleg, og það er stórfurðulegt að viðurkenna slíkt.

High School Musical 3 er talsvert betri en forverarnir að því leyti að hún er metnaðarfyllri og vandaðri. Dansatriðin eru miklu betur unnin, leikararnir sjálfsöruggari og lögin margfalt þolanlegri.
Eins og ég tók fram var ég ekkert alltof hrifinn af lögunum í hinum myndunum, en í þessari lotu voru þónokkur þeirra bara þrusufín, og sum alveg stórhættulega grípandi.

En var myndin hallærisleg? Almáttugur, já! En samt sjaldan á vitlausum stöðum, og í raun átti ég von á því að fá oftar kjánahroll en ég gerði. Rólegu lögin voru samt alveg brjálæðislega væmin og í hvert sinn sem að slíkt númer hrökk í gang varð myndin alveg út úr kú. Nokkur slík móment eyðilögðu hér um bil sumar senur sem að fókusuðu á persónulegu hliðar sögunnar, sem er stór mínus. Hún gengur nefnilega alveg óvenju vel upp þegar hún er "hæper" og orkurík.

Persónurnar eru annars góður kostur við þessa mynd. Kannski voru þessar litlu gelgjur bara búnar að vaxa svona á mig eftir að hafa horft á hinar myndirnar, en ég fílaði persónurnar helvíti vel og miðað við hvers konar mynd þetta er þótti mér sérstakt að meirihluti þeirra hafi ekki verið neitt óþolandi. Ungu leikararnir eru augljóslega farnir að þekkja hlutverkin sín betur og það hjálpar mjög mikið. Samt kann eiginlega enginn af þessum krökkum að sýna almennileg leiktilþrif fyrir utan súkkulaðidrenginn Zac Efron (sem fór nett á kostum í Hairspray), en jafnvel hann á til með að vera frekar ýktur stundum og þá sérstaklega í dansatriðum, en ég kenni þá frekar leikstjóranum um það heldur en leikaranum. Þess má samt til gamans geta að þessi mynd inniheldur eitthvað það alsýrðasta tónlistarnúmer sem ég hef séð í fjölskyldumynd, þegar Efron tekur einsöng á meðan herbergið hringsnýst (!). Svo stuttu áður syngur hann hástöfum á meðan það rignir körfuboltum (!!). Spes.

Ég skil vel að margir kjósi að forðast þessar myndir eins og heitan eldinn. Trailerinn leit illa út og söngvamyndir eru þegar nógu umdeildar hjá meðaljónum. Mér finnst fólk samt skilyrðislaust hata þessar myndir, og persónulega get ég talið upp langtum verra barnaefni heldur en þetta (Latibær, halló?!)

High School Musical 3 er geysilega saklaus Disney-afþreying sem ég "óvart" skemmti mér yfir, bæði í hallærisleika og óvæntum sjarma. Fólk sem veit fullkomlega hvað það er að fara að sjá mun líklega ekki sjá mikla ástæðu til að kvarta.

6/10 - Enn og aftur... Spes.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frábær tónlist og kvikmynd!
Ójá!

Þetta fannst mér skemmtileg kvikmynd. Skemmtilegasta High School Musical myndin fannst mér ótrúlegt en satt, þá var þriðja framhaldsmyndin sem var best, venjulegast er það nefninlega gert eiginlega bara gert til að græða...

Mér fannst tónlistin meiriháttar, ég fíla bara svona söngva- og dans myndir. Mér fannst Mamma Mia! góð, hinar High School Musical myndirnar og líka Hairspray svo eitthvað sé nú nefnt.

Ég verð nú samt að upplóstra því í þessum dómi að ég er mikill aðdáandi Zac Efron, Vanessu A. Hudgens, Ashley Tisdale, Corbin Blue og allra hinna.

8/10 svo allir verið sáttur :-)
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

15.10.2019

Óendanlega mikið efni á Disney+

Ný streymisveita Disney afþreyingarrisans fer brátt í gang, og nú er orðið ljóst hvað boðið verður upp á í veitunni, en um er að ræða gríðarlegt magn af efni. Sagt er frá þessu á vef Gizmodo. Um helgina birti fyrirtækið stutta kitlu á Twitter, þar sem stiklað var á stóru, og sagt frá einhverjum af þeim kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem í boði verða. Þar er ekki eingöngu um nýtt og frumsamið efni eins og geimvestrann The Mandalorian að ræ...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn