Náðu í appið

Max Payne 2008

Aðgengilegt á Íslandi

Frumsýnd: 17. október 2008

100 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 15% Critics
The Movies database einkunn 5
/10
The Movies database einkunn 31
/100

Fjölskylda rannsóknarlögreglumannsins Max Pane var myrt í tengslum við samsæri í New York borg og hann leitar nú réttlætisins. Mona Sax er leigumorðingi sem vill hefna fyrir dráp á systur sinni. Saman leita þau að þeim sem er ábyrgur fyrir ódæðunum, en á sama tíma eru þau elt af lögreglunni, mafíunni og fleiri óprúttnum aðilum.

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Svipaðar myndir


Gagnrýni (3)

Rusl...
Mér finnst það hentugt að lýsa Max Payne myndinni sem ruslinu neðst í ruslakörfum þar sem ruslasafi myndast og gerir ruslið ennþá ógéðslegra. Þetta er hroðalega ömurleg mynd sem hefur kannski svona tvo litla kosti yfir heildina. Ég vil taka það fram að ég hef spilað fyrsta tölvuleikinn, bara ekki mikið og það var langt síðan.

Af hverju finnst mér Max Payne vera rusl? Fyrsta lagi er handritið það illa skrifað, að mér finnst eins og 13 ára aðdáðandi tölvuleikjanna hafi reynt að skrifa sína útgáfu af Max Payne. Öðru lagi eru allar persónurnar fórnalömb handritsins og eru þær allar þunnar og leiðinlegar, þar á meðal Max Payne sem er gersamlega flatur karakter alla myndina. Ég verð einnig að minnast á Ludacris sem kemur með eina mest ósannfærandi frammistöðu sem FBI útsendara sem ég hef séð. í þriðja lagi þá er söguþráðurinn einnig fórnalamb handritsins þar sem það tekur breytingar sem virka ekki og eru jafnvel hlægilegar, þar sem ég án gríns giskaði á allt sem myndi gerast og var það allt rétt hjá mér. Ef mynd getur ekki tekið eina breytingu sem kemur á óvart þá ertu með einn slappan söguþráð, sérstaklega ef myndin er ekki að fara eftir tölvuleiknum.

Útlitið var flott en mér fannst stíllinn aðeins ofgerður, myndin virkaði frekar hrein sem er ekki alveg í stíl við hráleikann sem einkenndi Max Payne leikinn. Svo er myndin PG-13 sem er í miklu ósamræmi við tölvuleikinn, og að mínu mati er það stórt "cop-out" til þess að græða meira í boxoffice. Hinsvegar held ég að R-rating hefði ekki breytt miklu, það hefði allavega ekki bætt myndina í gæðum.

Yfir heildina þá voru svona tvær góðar hugmyndir til staðar og tvö góð atriði, sem gera hinsvegar ekkert til þess að draga upp myndina í áliti. Ég sé ekki alveg hvernig aðdáðendur leiksins geta virkilega fílað þessa mynd nema þeir séu milli 10-15 ára. Fyrir mig voru þetta 90 mínútur af innihaldslausari tímasóun og ég nenni varla að eyða meiri tíma í að gagnrýna hana.

Max Payne er rusl.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vonbrigði en samt ekki léleg
Ég hef ennþá ekki séð mynd byggða á tölvuleik sem hægt er að kalla góða. Það verður að teljast súrt, og þar sem að tölvuleikir nú til dags eru sífellt að verða margslungnari og innihaldsríkari er erfitt að skilja hvers vegna enginn getur framleitt verðugt handrit af slíku.

Guð hvað ég vildi að þessi mynd hefði orðið sú fyrsta í geiranum sem ég hefði getað mælt með...Max Payne er nánast skólabókardæmi um hugtakið "style over substance." Myndin leggur mikla áherslu á það að líta vel út meðan að innihaldið virkar hálf tómt. Ég tek það að vísu fram að ég er mikill aðdáandi leikjanna, en ég reyni að koma að þessari umfjöllun bæði hlutdrægur og hlutlaus. Max Payne-leikirnir voru eins og tölvuleikjaútgáfur af gríðarlega flottum bíómyndum sem aldrei voru gerðar. Stíllinn var til staðar, þrátt fyrir að vera heldur ófrumlegur (bullet-time? halló!) en engu að síður var andrúmsloftið svo nett myrkt og fílingurinn svo svalur að maður leit auðveldlega framhjá því. Innihaldslega séð voru leikirnir heldur sterkir, jafnvel hálf ruglingslegir, en það er sjokkerandi í sjálfu sér að aðstandendur Fox skyldu ekki getað fundið ríkara innihald fyrir þessa mynd.

Það virðist eins og að leikstjórinn John Moore (sem er þekktastur fyrir tvær tilgangslausustu endurgerðir síðustu ára: Flight of the Phoenix og The Omen) hafi spilað annan leikinn í rétt svo 10 mínútur en síðan gefist upp og ákveðið að fara í allt aðra átt með ræmuna. Þessi mynd lítur óneitanlega út eins og Max Payne-mynd og hún er drekkhlaðin tilvísunum handa aðdáendum. Það er aftur á móti ekki nóg... Það kemur mikið á óvart hvað myndina skortir ekki aðeins almennilegt innihald, heldur líka fullnægjandi hasar. Maður myndi telja það sem sjálfsagðan hlut að hasar væri stór partur af spennumynd sem byggð er einmitt á 3. persónu skotleik.

Söguþráður myndarinnar er líka voða hefðbundinn og m.a.s. frekar fyrirsjáanlegur. Myndin er líka frekar hæg miðað við það að hún tekur ekkert tillit til persónusköpunar. Max Payne sem karakter hefði getað orðið mun kröftugri týpa en handritið gerir hann bara svo flatan og dæmigerðan. Mark Wahlberg stendur sig reyndar ekkert illa og í raun lítur hann bara nokkuð vel út sem titilpersónan. Hann nær að öðlast samúð áhorfandans og maður hikar ekki við að halda með honum, en það breytir því ekki að hann er rosalega tvívíður. Krúttið litla Mila Kunis kemur samt mun verr út. Hún er ekki léleg leikkona, en persóna hennar, Mona Sax, er svo ferlega illa skrifuð að hálfa væri nóg. Mona er þunn persóna sem þú færð ekkert að vita um og breytist ekkert út alla atburðarásina. Frekar hefði átt að sleppa henni og gefa Max meiri tíma til að ná betra sambandi við áhorfandann.

En þrátt fyrir heilan haug af göllum tókst mér að hafa nokkuð gaman að myndinni, þ.e.a.s. um leið og ég var farinn að meðtaka hana sem þunna, vel útlítandi afþreyingu en ekki almennilega Max Payne-mynd. Útlitið er nefnilega hátt í frábært, og stundum er svo flott að horfa á myndina að rammarnir skilja langtum meira eftir sig heldur en plottið. Kvikmyndatakan er flott, stíllinn passlegur og tónlistin smellur vel við. Hljóðvinnslan stendur líka rækilega fyrir sínu og nýtur sín stórkostlega í ofbeldissenum.

Í besta falli er Max Payne lúmsk "guilty pleasure" mynd. Þetta er ein af þessum myndum sem að hafði mikla möguleika en fékk aldrei frelsið til að sleppa sér algjörlega. Fox hefur augljóslega frekar viljað dæmigerða PG-13 spennumynd í stað þess að ganga lengra og fá eitthvað mun ríkara og minnisstæðara. Alltaf bömmer þegar framleiðendur nenna ekki að taka áhættur þegar þeir ættu að gera það.

Myndin rétt slefar yfir miðjumoðseinkunn (6/10).
Það eina sem ég get sagt út frá þessu, sem aðdáandi leikjanna, er að þetta hefði getað jafnvel orðið mun verra. Lítum á björtu hliðarnar; Hún er skárri en Hitman og a.m.k. gerði Uwe Boll ekki þessa mynd.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vonsviki (Varúð! Inniheldur Spoilera)
Ég hef spilað Max Payne og Max Payne 2: Fall of Max Payne. Þetta var ekki í líkingu við leikina. Mark Wahlberg kemur ekki hlutverkinu nógu vel frá sér. Hann heldur áfram að vera lögga alveg í gegnum myndina frekar heldur en að verða sá snarruglaði einstaklingur sem Max er í leikjunum. 

Í fyrri helming myndarinnar eru aðeins um 4-5 skotum hleypt af. Ekki líkt Max.
Alla myndina þá sést ekki ein verkjatafla. Það er ekki Max.
Mona Sax er illa leikin af Milu Kunis sem lítur út eins og skólastelpa með Gucci tösku og hríðskotabyssu. 
Alla myndina þá eru c.a 15 manns sem verða fyrir skotum! Og aðeins einu sinni tekið bullet-time atvik!

Þessi mynd er á sama bát með "DOOM" þar sem ekkert vitrænt og í takt við leikina gerist þangað til c.a 15 mínútur eru eftir af myndinni. Í Max Payne þá er reynt að ná að endurgera loka bardagan sem á sér stað í Aesir turninum en það klúðrast hrapalega. 
Ég hef aldrei upplifað eins mikið Deus Ex Machine moment heldur er þegar Max dregur upp Valkyre og drekkur það eftir að hafa stungið sér til sunds í köldum sjónum. 

Eina góða við þessa mynd er myndatakan sem nær algjörlega að koma frá sér þessum kalda, einmanalega og blauta heimi sem New York borg er í leikjunum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sjá allar gagnrýnir
Skrifa gagnrýni
Skrifa gagnrýni
Fyrirsögn
Senda inn
(Anda rólega, getur tekið smá tíma að fara yfir)
Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn