Ég er mikill M. Night Shyamalan aðdáandi og hef greinilega haft meira gaman af myndum hans í gegnum tíðina heldur en aðrir. Til dæmis um þetta fannst mér Lady in the Water alls ekki jafn slæm og menn tala um enn þann dag í dag og á ég í raun erfitt með það að hugsa mér slæma mynd sem kappinn hefur gert (The Village var ekki svona slæm!!). Þegar ég frétti af því að The Happening hefði ekki verið forsýnd neinsstaðar hugsaði ég mér að þetta gæti ekki aðeins verið útaf því að Shyamalan er greinilega enn í fýlu útí gagnrýnendur sem hraunuðu yfir Lady in the Water heldur þyrfti þetta að eiga eitthvað meira með myndina sjálfa að gera. Þegar ég heyrði slúður um áætlaðan söguþráð myndarinnar var ég alls ekki hrifinn.
Ég mætti myndinni með mjög opinn huga og jafnvel fékk Shyamalan smá forskot hjá mér, enda er ég stór aðdáandi. Myndin fer rólega af stað og tekur aldrei á loft, og þó svo að upprunalega hugmyndin sé rosalega góð þá er plottið sem Shyamalan fer með myndina útí alls ekki nógu sterkt til að halda henni gangandi alla leið. Shyamalan hefur
aldrei verið leikstjóri sem nær því besta úr leikurunum, en það er hins vegar einkennandi stíll hans sem er venjulega ríkjandi út allar myndir hans sem að yfirgnæfir nánast allar stjörnuframmistöður leikara, nema kannski Haley Joel Osment, ungstirnið í The Sixth Sense. Zooey Deschanel er hræðileg framanaf, en batnar þegar á líður og maður fékk á tilfinninguna að Marky Mark væri ekki alveg viss með hvernig hann ætti að nálgast hlutverk sitt. Besti leikur myndarinnar sést hjá Betty Buckley, en frammistaða hennar minnti mig um margt á Kathy Bates í Misery.
Þegar á líður nær hún að byggja upp spennu í 20 mínútur eða svo, og má segja að það sé besti kaflinn. Bregðuatriðin eru fá og langt á milli, og spennuatriðin í myndinni eru vægast sagt hlægileg miðað við plottið sem Shyamalan byggir myndina upp með. Ég náði að gera það sem margir náðu ekki að gera í bíósalnum, ég sætti mig við plottið og gerði mitt besta til að reyna að lifa mig inní það sem var að gerast. Þrátt fyrir það
varð ég ekki verðlaunaður, líkt og t.d. í Indiana Jones 4 nýtur maður myndarinnar mun betur ef maður nær að sætta sig við ótrúlegustu hluti sem gerast í þeirri mynd.
Þó svo að maður gerir það í þessari mynd þá fær maður ekkert fyrir það, hún verður ekkert betri eða meira spennandi fyrir vikið. Ef við tökum dæmi úr Signs þá hefur hún
mikið af fáránlegum hlutum, eins og hringlaga hurðarhúna og vatn (þið vitið öll hvað ég er að tala um) sem voru virkilega kúl vegna þess að þau voru svo absúrt en The Happening hefur ekkert af þessu, hún er hálfpartinn raunsærri en hinar myndirnar hans og verður veikari fyrir vikið, því hún reynir að taka á þjóðfélagsmáli sem við vitum öll af, en á fáránlegan hátt.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá fannst mér myndin ókláruð, mikið var asnalega klippt og hljóð í sumum mest spennandi atriðunum virkaði ekki, það voru aðeins skruðningar.
Stíll Shyamalan náði alls ekki að njóta sín og maður fékk á tilfinninguna að það væri verið að spara fullmikinn pening. Myndin er gríðarleg vonbrigði, sérstaklega fyrir aðdáendur meistarans. Upprunalega hugmyndin er góð en útfærð á gegnsæjan og fyrirsjáanlegan hátt. 1 og hálf stjarna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei