Ég hefði nú haldið að það yrði nokkuð erfitt að komast upp á sama gæðaplan 28 Days Later, en einhvern veginn nær þessi mynd að vera jafningi hennar á nánast allan hátt, bæði hvað ferskleika og spennu varðar. Það fer þó ekki framhjá manni að stærsti munurinn þeirra á milli sé framleiðslugildið, þ.e. hvernig þessi mynd er augljóslega dýrari heldur en hin var. Ódýri, hrái stíllinn á fyrstu myndinni brennimerkti hana rosalega, og það hefur hún ávallt fram yfir þessa mynd. Annars vegar, hvað sjálft handritið varðar, þá er nóg um að vera í þessari umferð til að tryggja nett blóðuga og hraðvirka atburðarás sem heldur athygli manns frá A-Ö.
Kvikmyndataka sem og klipping skilar sér með eftirminnilegum hætti og leikframmistöður eru ekki af verri endanum. Leikararnir eru flestir, en ekki allir, semi-óþekktir, sem er ákveðinn plús, þó svo að undirrituðum finnst ávallt gaman að horfa á Robert Carlyle, sem er nokkuð eftirminnilegur þarna í sínu hlutverki.
Ég hugsa að stærsti jákvæði faktorinn við þessa mynd sé sá að hún flæðir á góðum hraða og heldur uppi bæði skemmtana- og afþreyingagildi mjög vel. Myndin fer af stað á fyrstu mínútu (með FRÁBÆRU upphafsatriði) og eyðir litlu púðri. Framhaldsmyndir í þessum bíógeira eru gjarnan brothættar, og á ég erfitt með að muna hvenær ég seinast sá slíka sem að helst á sama kalíberi og fyrsta myndin. Ég hefði svo sannarlega viljað að t.d. Hills Have Eyes II hefði hlotið þannig örlög.
28 Weeks Later fær traustan þumal, og ég er alls ekkert á móti því að sjá 28 Months Later...
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei