Aðalleikarar
Bara hörkugóð hrollvekja sem lætur mann skjálfa passlega og fara pínu á taugum. Ég er aðdáandi góðra hryllingsmynda og þessi er ekki svo galin, enda fannst mér líka leikur, handrit og tækni yfir meðallagi. Hún jafnast ekki á við Mothman Prophesies eða Sixth Sense, enda er það til mikils mælst. Hún fjallar um nokkur ungmenni sem fara í andaglas (er ekki alltaf verið að vara mann við því??) og þurfa að taka hörmulegum afleiðingum þess. Þau ákalla djöful sem tekur sér bólfestu í líkama eins þeirra, en við vitum ekki hver það er fyrr en í lokin. Ég grunaði alla á tímabili. Endirinn var vægast sagt ófyrirsjáanlegur að mínu mati, en spennan hélst allan tímann. Ég vil ekki setja hana við hlið dæmigerðra unglingamynda eins og I know what you did last summer eða Scream, -þær áttu sína kafla en þessi er betri. Hún tekur mann þónokkuð á sálfræðinni og ég mæli hiklaust með henni fyrir aðdáendur þess konar hrollvekja.
Breskar myndir falla oftast undir tvo flokka, hugaðar dramatískar myndir(The Crying Game ‘92, The Killing Fields ‘84), og sérkennilegar grínmyndir(Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb ’64, Monty Python and the Holy Grail ’75). En stundum kemur einhver og reynir að breyta hefðinni. Að þessu sinni Marcus Adams, í sinni fyrstu kvikmynd, Long Time Dead hefur hann ákveðið að stæla Hollywood hrollvekjur á borð við Urban Legend og I know what you did last summer, sem eru reyndar sjálfar að stæla Scream sem var að stæla Halloween, Nightmare on Elm Street og svo framvegis.
Sagan er einföld. 8 mann vinahópur skellir sér útá lífið eitt kvöldið, dans, eiturlyf og svo framvegis. Þegar þau eru öll búin að dansa nóg og taka inn alsælu pillurnar sínar þá skella þau sér í myrkvað herbergi til að fara í andaglas. Áður en þau vita af er einhver komin til þeirra, ‘djinn’ andi sem segir þeim að þau eigi öll eftir að deyja. Sem á reyndar við um alla en í þessu tilviki á hann við fljótt og örugglega. Þau æpa öll og hlaupa um á meðan hann stendur viði það sem hann sagði. Restin af myndinni gengur síðan þannig, allir deyja á einhvern nýjan og ófrumlegan hátt, stundum kemur ‘búú’ atriði sem eru flest tekin úr öðrum betri myndum og auðvitað fylgir ótrúlega léleg kvikmyndataka sem er einhverskonar blanda á milli Fight Club og The Blair Witch Project!
Allt sem kemur þessari mynd við er lélegt. Handritið, sem sjö manns taka heiðurinn af, er hræðilegt. Það sem vellur uppúr leikurunum er oftast svo kjánalegt að það þau virðast vera að búa það til jafnóðum. Ef atriðið er ekki léleg útgáfa af atriði úr gamalli Wes Craven(þá helst Shocker) mynd er það bara lélegt og ófrumlegt. Það fengu allir nóg af þessum djinn verum úr Wishmaster kvikmyndunum, þar var hann alla veganna í flottum búning. Eitt af því sem vantar í flestar slasher kvikmyndir er góð persónusköpun. Ég er ekki að biðja um neitt sérstakt en þegar manni er alveg sama um örlög fórnarlamba morðingjanna þá nennir maður þessu ekki. Í Wes Craven myndunum A Nightmare on Elm Street, Shocker, Scream og fleirum hélt ég með góða fólkinu en hérna vildi ég bara að andinn drifi þetta af svo ég gæti farið heim. Hvernig fór Marcus að því að stæla Craven myndir svona mikið án þess að taka eftir þessu?
Æjá, gleymdi því næstum því. Eitt atriðið gerist í geðveikrar hæli. Eitt fórnarlambið er að tala við föður sinn sem er sjúklingur þar. Takið eftir því að kvikmyndatakan í þessu atriði er nákvæmlega eins og Michael Mann tók upp atriðin í Manhunter þegar Hannibal Lecter og Will Graham töluðu saman.
Marcus Adams virðist ekki hafa neina hæfileika í kvikmyndagerð. Einsog ég nefndi hérna fyrir ofan er töku stílinn hans léleg blanda af Fight Club og The Blair Witch Project. Það er aldrei neinn hrollvekju fílingur, aðeins óp, blóð og fullt af fólki með ótrúlega ýktan og pirrandi breskan hreim.
- www.sbs.is
Þessi mynd er um unglinga sem fara í andaglas og sú óheppni gerist að einn fríkar út og brýtur glasið (reglan er að ekki má fara með puttann af glasinu). Svo byrja unglingarnir hver af öðrum að drepast með frekar fyrirsjáanlegum atburðum af hinum illa djöfli Djinn.
Þessi mynd er að mínu mati mjög fyrirsjáanleg en samt hrökk ég við margoft. ég mæli með þessari mynd fyrir þá sem vilja bregða því ég lofað þér því að þér muni bregða nokkrum sinnum.
Hreint út sagt ömurleg mynd!!!
Svona myndir eiga ekki að vera gefnar út.
Þetta er eitthvað sem að maður er búinn að sjá milljón sinnum
Long Time Dead er bresk hrollvekja sem fjallar um nokkra háskólakrakka sem taka eitt kvöldið upp á því stórsniðuga uppátæki að fara í ''andaglas''. Þetta heppnast ekki betur en það að þau ná að leysa úr læðingi djöful sem kallast Djinn, og þarf sá að drepa þau öll til þess að komast aftur til andaheima. Það kemur svolítið á óvart að Bretar skuli senda frá sér svona mynd, en þeir sem tengja Bretland við gæða kvikmyndir geta alveg verið rólegir - það kemur í ljós að Long Time Dead er ekkert betri eða frumlegri en mest af þeim hryllingsmyndum sem hafa komið út undanfarið. Afhverju gef ég henni þá tvær og hálfa stjörnu? Nú, það er einfalt - hún er frekar óhugnaleg út í gegn, stundum þorir maður varla að horfa á tjaldið og hún hefur meira en sinn skerf af ''bregðuatriðum''. Ef þetta hljómar ekki eins og þokkaleg hryllingsmynd er ég illa svikinn. Söguþráðurinn er aftur á móti frekar undarlegur og er raunar leit að heilli brú í honum. Þegar allt kemur til alls held ég að hrollvekjufíklar eigi eftir að ganga þokkalega sáttir út af þessari þó hún muni kannski ekki lifa lengi í minni þeirra.