Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Stundum er nauðsynlegt fyrir geðheilsuna að skrúfa fyrir Hollywood og hlamma sér á sófann með haug af góðum indie-myndum sem maður komst aldrei til að sjá í bíó. Ég sá L.I.E. í einu svona kasti og sé ekki eftir því. Titillinn er skammstöfun á Long Island Expressway, sem er einhver leiðinlegasta og litlausasta hraðbraut Bandaríkjanna. Fyrir utan það að vera í nágrenni aðalpersónanna er titillinn tilvísun í leiðindin sem fylgja því að búa í úthverfum, sem eru andlegar auðnir nútímans. Þessi leiðindi leiða ungt fólk oft út í smáglæpi og önnur minni prakkarastrik, og það er einmitt það sem táningarnir hér gera. Þessi afglöp verða til þess að þeir kynnast eldri manni (Brian Cox, frábær að venju), sem reynist vera geðgóður og viðkunnanlegur barnaperri með smekk fyrir ungum drengjum. Þetta er síður en svo hversdagsleg saga, en leikstjórinn Michael Cuesta fer með viðfangsefnið á eins smekklegan máta og maður getur ímyndað sér. Það eru hins vegar leikararnir sem eiga mest hrós skilið. Eðalleikarinn Cox er aðdáunarverður í sínu hlutverki, og þeir Paul Franklin Dano og Billy Kay eru sérlega góðir í hlutverki vandræðaunglinganna. L.I.E. er alls ekki hvers manns smekkur, en þeir sem leggja í hana á annað borð ættu að vera sáttir þegar yfir lýkur.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Michael Cuesta, Stephen M. Ryder
Framleiðandi
Lot 47 Films
Kostaði
$700.000
Tekjur
$1.667.192
Vefsíða:
Aldur USA:
NC-17