Aðalleikarar
Bounce er rómantísk dramamynd sem fjallar um náunga nokkurn að nafni Buddy (Ben Affleck) sem hittir dag einn náunga á flugvelli og aðstæður þróast þannig að Buddy gefur honum flugmiðann sinn. Þetta reynist ekki vera mikið góðverk því flugvélin hrapar og sektarkenndin sem þessu fylgir hvílir þungt á Buddy. Ári seinna leitar hann uppi ekkju óheppna farþegans í von um að geta gert henni lífið auðveldara. Milli þeirra þróast ástarsamband en stormský eru á sjóndeildarhringnum þar sem hún veit ekki hver Buddy er. Ben Affleck kemur dálítið á óvart hér með sterkari leikframmistöðu en maður hefði venjulega búist við af honum en Gwyneth Paltrow er hálf flöt eitthvað greyið. Engu að síður nær traust handrit og litríkar aukapersónur að lyfta myndinni upp yfir meðallag. Það koma atriði þar sem farið er yfir öll velsæmismörk hvað væmni varðar en það er eitthvað sem maður hefði getað sagt sér sjálfur og þetta nær ekki að draga of mikið niður. Sem rómantísk vasaklútamynd er hún því hreint ágætlega heppnuð og ætti að vera góð skemmtun fyrir fólk sem veit hvað það er að fara á.