Best in Show er úr smiðju þeirra Christopher Guest og Eugene Levy, sem eru gamanleikarar af gamla skólanum. Þeir stóðu saman að snilldinni Waiting for Guffman fyrir nokkrum árum, og þessi mynd gerir jafnvel enn betur. Þeir hafa sankað að sér aðdáunarverðum hópi leikara, þeirra á meðal hinum frábæru Michael McKean og Catherine O'Hara, sem bæði eru stórlega vanmetin hér vestan hafs, Parker Posey og Fred Willard, sem fer á kostum í hlutverki kynnis á keppninni. Líkt og í Guffman er myndin byggð upp sem heimildarmynd þar sem blandað er inn í viðtölum við aðalpersónurnar. Að þessu sinni er sögusviðið Mayflower-hundasýningin í Philadelphiu, og fylgst er með undankeppnum og eigendum nokkurra keppendanna. Þeirra á meðal eru undarleg hjón frá Flórída sem eru alltaf að rekast á gamla kærasta konunnar (Levy er frábær sem kokkálaði eiginmaðurinn), ótrúlega stressað uppapar sem varpar öllum tilfinningum yfir á hundinn sinn, ólíklegasta hommapar síðari ára, stórundarlegur Suðurríkjamaður með áhuga á búktali, og vægast sagt ljóshærð gella með eldgamlan eiginmann. Áhorfendur fá að fylgjast með ævintýrum þessa liðs og stressinu sem fylgir jafn miklu álagi og hundakeppni hlýtur að vera. Þeir sem ná sér í DVD-diskinn ættu að skoða úrklippurnar, þar sem hún var að miklu leyti spunnin og sum atriðin sem sleppt var eru alveg dæmalaus og sýna leikarana ganga aðeins of langt með vitleysuna. Það er meira en óhætt að mæla með Best in Show. Hún er sennilega ekki fyrir alla, en hún er full af lágstemmdum en frábærum húmor sem auðvelt er að hafa gaman að.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei