Disney afþreyingarrisinn hefur ákveðið að setja leikna útgáfu sína af Mulan, sem búið er að fresta frumsýningu á trekk í trekk vegna veirunnar, beint á streymisleiguna Disney +, í stað þess að fara fyrst í bíó. Frá þessu segir vefurinn News 24.
Þessi fordæmalausa ákvörðun, sem forstjóri Disney, Bob Chapek, lýsir sem „sér á báti“ ( e. one-off ) fyrir Disney, er nýjasta áfallið af mörgum fyrir kvikmyndahúsakeðjur heimsins, sem skortir nú mjög nýjar myndir í sýningar.
Mulan, sem er rándýr framleiðsla um kvenkyns kínverska stríðshetju, mun verða aðgengileg í Bandaríkjunum á Disney+ frá 4. september nk.
Laða að áhorfendur
„Við sjáum þarna tækifæri til að færa stórum hópi áhorfenda þessa ótrúlegu kvikmynd, sem ekki kemst í kvikmyndahús, en á sama tíma laðar það fleiri áskrifendur að Disney + þjónustunni,“ sagði Chapek á fundi með fjárfestum.
Á öðrum mörkuðum, eins og í Kína, mun kvikmyndin fara í bíó á sama tíma og hún verður aðgengileg í streymi í Bandaríkjunum, en óvíst er með dreifingu í streymi í Kína.
Ákvörðunin um að setja Mualn beint á Disney + er tekin í ljósi þess að önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir Bandaríkin, og bíóhús hafa þurft að fresta enn frekar opnun sala sinna.
Fyrir faraldurinn biðu kvikmyndaverin yfirleitt í 90 daga áður en þau settu stórmyndir sínar á streymisleigur.
En nokkrar stórar kvikmyndir, þar á meðal Trolls World Tour, hafa halað inn tekjum upp á tugi milljóna Bandaríkjadala í heimsfaraldrinum, eingöngu á streymisveitum – en þá er gjarnan rukkað aðeins hærra verð en ella.
„Við lítum á Mulan sem afmarkað dæmi, í stað þess að líta beri á þetta sem eitthvað nýtt viðskiptamódel hjá okkur hvað varðar frumsýningar,“ sagði Chapek.
En hann sagði að tilraunin myndi gefa fyrirtækinu dýrmætar upplýsingar um hegðun viðskiptavinarins, um það hversu viljugur hann væri til að reiða fram 30 dali fyrir nýja mynd.
„Ef þetta gengur vel, þá mun þetta ná til baka einhverju af fjárfestingunni í frekar dýrri kvikmynd,“ sagði Chapek.
Gerð Mulan kostaði um 200 milljónir dala.
Átti að byrja í mars
Upphaflega stóð til að frumsýna myndina í mars, og meira að segja var haldin hátíðarfrumsýning á rauðum dregli- áður en byrjað var að fresta myndinni .
Mulan átti síðan að verða ein af stórum myndum ársins, sem áttu að lokka fólk aftur í bíó að loknum faraldrinum.
Tenet frumsýnd bráðum
Áætlað er að frumsýna stórmyndina Tenet eftir Christopher Nolan um allan heim utan Bandaríkjanna, þar á meðal hér á Íslandi, þann 26. ágúst nk., en í september er áætlað að hefja sýningar á myndinni í Bandaríkjunum í takmarkaðri dreifingu.