Sjónvarpsþátturinn Roseanne, sem sýndur var um árabil hér á Íslandi við miklar vinsældir, átti magnaða endurkomu í sjónvarpi í Bandaríkjunum nú fyrr í vikunni, en áhorf á endurkomuþáttinn fór langt fram úr væntingum framleiðenda. 18,2 milljónir áhorfenda horfðu á þáttinn, sem er 10% fleiri áhorfendur en sáu lokaþátt upphaflegu seríunnar fyrir 21 ári síðan.
Búist var við því fyrirfram að þeir sem minntust gömlu þáttanna með hlýju í huga, myndu snúa aftur að sjónvarpsskjánum, og fólk væri forvitið um afdrif persónanna. Enginn spáði þó fyrir um jafn gríðarlegan áhuga og reyndist vera á þættinum þegar á hólminn var komið, þar sem fólk flykktist að viðtækjunum til að berja þessa verkamannafjölskyldu sem styður Donald Trump, augum.
Þegar undirbúningur stóð yfir að gerð þáttanna átti reyndar enginn von á að Trump yrði kosinn forseti Bandaríkjanna, og því má segja að framleiðendur hafi að því leiti dottið í lukkupottinn.
Samkvæmt markaðsgögnum þá var mest áhorf á þáttinn í þeim ríkjum þar sem mest fylgi var við Donald Trump í kosningunum. Þannig horfðu flestir í Tulsa í Oklahoma, þar sem Trump fékk 65,3% atkvæða.
Hægri sinnaðir Bandaríkjamenn voru óhressir með það þegar ABC sjónvarpsstöðin hætti nýlega sýningum á sjónvarpsþáttum Tim Allen, Last Man Standing, þrátt fyrir gott áhorf.
Og nú eru aðrir sjónvarpsþættir, The Middle, sömuleiðis hættir göngu sinni, þannig rými er að myndast á ýmsum vígstöðvum fyrir nýja sjónvarpsþætti á dagskránni.
Kíktu á kitlu fyrir þættina hér fyrir neðan: