Mikil þátttaka var í Einnar mínútu myndakeppni RIFF í ár, en Einnar mínútu myndir (e. The One Minutes) er hugmynd sem kveiknaði í Hollandi árið 1998 en er nú orðið að alþjóðlegri hreyfingu, að því er segir í tilkynningu frá RIFF. „Hugmyndin er einföld: Að búa til stuttmynd sem er nákvæmlega ein mínúta að lengd en getur að öðru leiti verið hvernig sem verða vill.“
Í september í ár auglýsti RIFF eftir myndum í fyrstu einnar mínútu stuttmynda-keppnina á Íslandi, en þema keppninnar var LOFT.
Viðbrögð kvikmyndagerðarfólks voru stórgóð, að því er segir í tilkynningunni, og rúmlega 50 stuttmyndir voru sendar inn. Nú á sunnudaginn (29. sept) kl. 16:30 verða úrslitin kunngerð á Loft hostel í Bankastræti, samstarfsaðila RIFF í keppninni.
Ein mynd fær fyrstu verðlaun (Ipad frá Símanum), en samtals verða 10 bestu myndir teknar til sýningar. Þær munu rúlla á kaffihúsi Loft Hostel á meðan RIFF hátíðin varir.
Í dómnefnd voru blaðamennirnir Valur Gunnarsson og Gunnar Hjálmarsson, og Viktoría Guðnadóttir leikstjóri. Viktoría heldur einmitt fyrirlestur og vinnustofu um Einnar mínútu fyrirbærið nú á sunnudaginn. Sú dagskrá fer fram á Hótel Borg og stendur á milli kl. 14 og 16.
Hér má kynna sér hollensku ONEMINUTES samtökin og skoða einnar mínútu myndir.