Kvikmyndagerðarmaðurinn þekkti Michael Moore verður í beinni útsendingu í Bíó Paradís, í gegnum Skype spjallforritið, á föstudaginn næsta, þann 29. júlí, en Moore er staddur á kvikmyndahátíðinni The Traverse City Film Festival, þar sem hann er dagskrárstjóri.
Rætt verður við hann að lokinni sýningu á mynd hans Where to Invade Next, en sýningin hefst kl. 16 í Bíó Paradís.
Where to Invade Next var m.a. tekin var upp hér á landi síðastliðið vor (maí 2015).
Á meðal íslenskra viðmælenda myndarinnar eru Vigdís Finnbogadóttir, Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr, Ólafur Þór Hauksson ofl.
Ísland er eitt af 9 ríkjum sem fjallað er um í myndinni, og verða talsmenn frá öllum löndum þátttakendur í lifandi Skype umræðum við leikstjórann virta, eftir sýningu sem fer fram samtímis í umræddum ríkjum, auk fyrrnefndar kvikmyndahátíðar í Bandaríkjunum.
Kynnir verður Ísold Uggadóttir, sem annaðist framleiðslu á Íslandstökum myndarinnar.
Ókeypis er inn og allir velkomnir.
Í Where to Invade Next ferðast Michael Moore til Evrópu og Afríku til að skoða hvað Bandaríkin geta lært af þeim. Hann gerir glettnar tilraunir til að “hertaka” góðar hugmyndir annarra þjóða og kíkir meðal annars til Íslands þar sem konur er oftar að finna í stjórnunarstöðum, bæði innan ríkis og sjálfstæðra fyrirtækja, en í mörgum öðrum löndum.
Hann skoðar Ísland, orlof á Ítalíu, skólamötuneyti í Frakklandi, iðnaðarstefnu Þýskalands, fangelsismálakerfi Noregs og kvenréttindastefnu Túnis. Á ferðalagi sínu kemst Michael Moore að því að Bandaríkin hefðu gott af því að tileinka sér sitt hvað af siðum og stefnum annarra þjóða.