Nokkrar aðalsprautur á bakvið hina vinsældu bandarísku glæpaþætti Criminal Minds sem sýndir hafa verið hér á landi, hafa fært út kvíarnar og hyggjast í sameiningu framleiða nýja þætti sem heita Darkness Falls, en í þáttunum verða verkefni lögreglunnar síst minna viðbjóðsleg en í Criminal Minds þáttunum, en þar vaða ýmsir snarklikkaðir fjöldamorðingjar uppi með hugmyndaflugið í lagi, og fremja viðurstyggilega glæpi.
Þættirnir, sem þau Mark Gordon, Erica Messer og Janine Sherman Barrois framleiða, fjalla um sálfræðiteymi innan bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem leysir morðgátur þar sem morðinginn hefur myrt eina manneskju, en fremur ekki fjöldamorð, eins og í Criminal Minds.
Morðin eiga sér stað hér og þar um öll Bandaríkin og sérfræðingarnir eru því stöðugt á ferðinni í einkaþotu sinni, rétt eins og teymið í Criminal Minds.
Þó að vinna sé hafin við gerð þáttanna, þá er ekki enn víst hvort að þeir muni ná alla leið inn á dagskrá CBS sjónvarpsstöðvarinnar.