Meira af öllu í nýrri Star Trek Into Darkness stiklu

Upphitunin fyrir frumsýningu á nýju Star Trek myndinni, Star Trek: Into Darkness er í fullum gangi. Nú er komin út glæný stikla úr myndinni sem sýnir okkur meira af Kirk skipstjóra, meira af leikaranum Benedict Cumberbatch í hlutverki aðal þorparans, meira af skotbardögum, sprengingum, eldi og í raun meira af öllu.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Enn er lítið vitað um persónuna sem Cumberbatch leikur, en þó má ráða aðeins í það út frá stiklunni. Enginn virðist kalla hann sínu rétta nafni, John Harrison, en persónan sem Peter Weller leikur segir okkur að maðurinn sem sé ábyrgur fyrir árásum á Sambandið sé „einn af okkar bestu útsendurum“. Og Cumberbatch segir sjálfur, „Ég er betri í öllu“, sem ýtir undir kenninguna um að búið sé að erfðabreyta honum …

Leikstjóri Star Trek Into Darkness er J.J. Abrams og handritshöfundur er Alex Kurtzman, Roberto Orci og Damon Lindelof.

Auk Cumberbatch og Weller þá leika í myndinni þau Chris Pine, Zachary Quinto, Karl Urban, Zoe Saldana, Anton Yelchin, Simon Pegg, John Cho og Alice Eve.

Myndin verður frumsýnd þann 17. maí á Íslandi.