Christopher McQuarrie hefur verið ráðinn til að leikstýra næstu Mission Impossible mynd, þeirri fimmtu í röðinni.
McQuarrie sagði fréttirnar á Twitter með skilaboðunum: „Mission: Accepted“, eða „Sendiför samþykkt,“ sem aðalmaðurinn, Tom Cruise, endurtísti, eða retweetaði, í kjölfarið.
Fljótlega sendi Tom Cruise, sem framleiðir og leikur aðalhlutverkið í öllum Mission Impossible myndunum, frá sér yfirlýsingu og sagði: „Ég er yfir mig spenntur að fá Chris í næstu mynd í seríunni.“
„Ég byrjaði að framleiða þessar myndir með það að markmiði að nýr leikstjóri með nýja sýn myndi koma að hverri mynd.“
„Chris er frábær kvikmyndagerðarmaður sem mun skila þeim hraða og spennu sem áhorfendur um allan heim vonast til að fá í hverri mynd í Mission: Impossible seríunni.“
McQuarrie og Cruise unnu saman síðast að Jack Reacher. Mission Impossible 5 er væntanleg í bíó 2015.